Home Fréttir Í fréttum GAMMA kannar rétt á bótum vegna milljarða taps

GAMMA kannar rétt á bótum vegna milljarða taps

174
0
Mynd: RÚV

Núverandi forsvarsmenn fjárfestingasjóðsins GAMMA ætla að kanna hvort hægt sé að sækja bætur til þeirra sem kunna að eiga sök á rekstrarvandræðum fasteignafélagsins Upphafs á árunum 2015-2019. Sjóðurinn gufaði nánast upp, fór úr því að vera metinn á um fimm milljarða niður í um 40 milljónir.

Sjá einnig: Leynilegar greiðslur varpa ljósi á tap GAMMA-sjóðs

Lífeyrissjóðir og fleiri fjárfestar töpuðu hundruðum milljóna vegna þessa, en eins og Kveikur fjallaði um í kvöld voru milljarðaframkvæmdir verktakans VHE ehf. settar af stað án útboða.

Kveikur greindi einnig frá gögnum sem hafa að geyma upplýsingar um tuga milljóna króna ráðgjafagreiðslur VHE til Péturs Hannessonar framkvæmdastjóra Upphafs. Rannsóknin er nú komin inn á borð héraðssaksóknara.

Í tilkynningu sem Máni Atlason, framkvæmdastjóri GAMMA sendi frá sér eftir þátt Kveiks í kvöld, segir að fjöldi fjárfesta kanni rétt til bóta úr höndum þeirra sem í hlut eiga.

Þá hafi samstarfi við VHE verið slitið í tveimur stærstu framkvæmdaverkefnum Upphafs. Framkvæmdir séu hafnar að nýju í samstarfi við aðra verktaka á grundvelli samninga eftir að leitað var eftir tilboðum í verkin.

GAMMMA fékk jafnframt endurskoðunarfyrirtækið Grant Thornton til að yfirfara rekstur sjóðsins á undanförnum árum, samhliða fjárhagslegri endurskipulagningu Upphafs. Bráðabirgðaniðurstöður þeirrar rannsóknar liggja fyrir og verða kynntar hagsmunaaðilum á næstu vikum, segir í tilkynningu.

Heimild: Ruv.is