Home Fréttir Í fréttum Steypubílsþjófurinn sem var handtekinn á vettvangi bruna í síbrotagæslu

Steypubílsþjófurinn sem var handtekinn á vettvangi bruna í síbrotagæslu

102
0
Allt tiltækt lið slökkviliðs var kallað út vegna eldsins á Pablo Discobar í gærkvöldi. Mynd: VÍSIR/ÞÓRIR

Karlmaður á þrítugsaldri sem var handtekinn á vettvangi bruna í Veltusundi í gærkvöldi hefur verið úrskurðaður í síbrotagæslu í fjórar vikur. Sami maður var handtekinn fyrir að stela steypubíl og reyna að stinga lögreglu af í síðustu viku.

Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að maðurinn hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15. apríl að kröfu lögreglu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Maðurinn er grunaður um aðild að brunanum á skemmtistaðnum Pablo Discobar sem tilkynnt var um á tólfta tímanum í gærkvöldi. Allt tiltækt lið slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var kallað út vegna eldsins og þurfti að rjúfa þak hússins.

Mikil hætta skapaðist þegar sami maður stal steypubíl á byggingarsvæði við Vitastíg og ók honum glæfralega í gegnum miðborgina á miðvikudag í síðustu viku. Ók hann meðal annars uppi á grasi gegn akstursstefnu við Sæbraut áður en lögreglumenn höfðu hendur í hári hans við Kleppsveg. Manninum var sleppt samdægurs að lokinni yfirheyrslu.