Home Fréttir Í fréttum Fjárnám hjá Gerplustræti ógilt

Fjárnám hjá Gerplustræti ógilt

205
0
Mynd: Vb.is

Héraðsdómur Reykjavíkur ógilti með úrskurði ákvörðun sýslumanns þess efnis að fjárnám hjá Gerplustræti 2-4 ehf. væri lýst árangurslaus.

Héraðsdómur Reykjavíkur ógilti í gær með úrskurði ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þess efnis að fjárnám hjá Gerplustræti 2-4 ehf. hefði lokið án árangurs.

Ástæða ógildingarinnar er að gerðarbeiðandi var ekki handhafi kröfunnar á þeim degi er gerðin fór fram.

Fjallað hefur verið um mál Gerplustrætis áður í Viðskiptablaðinu en félagið stendur að byggingu 32 íbúða í Mosfellsbæ.

Framkvæmdir drógust á langinn og voru fyrir hálfu ári 300 milljón krónum dýrari en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Þá hafði dregist í um fimmtán mánuði að afhenda íbúðirnar.

Kaupendum var gefinn sá kostur í fyrra að ljúka fyrirvaralaust við afsalsgreiðslu og falla með því frá skaðabótakröfu vegna afhendingardráttar.

Ella væri viðbúið að kröfuhafar félagsins myndu ganga að veðandlaginu, það er hinum nýju íbúðum.

Málið nú laut að aðfarargerð sem fram fór á skrifstofu sýslumanns í Kópavogi í mars í fyrra þar sem árangurslaust fjárnám var gert í eignum Gerplustrætis.

Gerðarbeiðandi var Faktoría ehf. en raunverulegur eigandi í fyrirtækjaskrá er skráður Gunnar Páll Tryggvason. Í málinu var verktaka málsins, þrotabúi Vonbrár ehf., einnig stefnt en þrotabúið tók ekki til varna.

Verktakinn hafi sólundað fjármunum
Uppbygging íbúðanna hófst í mars 2016 og að mati Gerplustræti að seinaganginn megirekja til háttsemi Vonbrár.

Verktakinn hafi nýtt greiðslur frá verkkaupa til að fjármagna önnur verkefni sem félagið vann að og stofnað til skulda á ábyrgð Gerplustrætis vegna verkefna sem komu byggingu þess félags ekkert við.

Vonbrá hafi því verið í verulegri skuld og endað á að gefa út 75 milljón króna skuldabréf til Gerplustrætis til að tryggja framgang verksins og endurgreiðslur.

Í málinu taldi Faktoría sig eiga kröfu á Gerplustræti samkvæmt skuldabréfi sem félagið hefði fengið framselt frá Vonbrá. Gerðarbeiðandi fjárnámsins var aftur á móti Vonbrá og kom það fulltrúum Gerplustrætis nokkuð á óvart þegar fulltrúar frá Faktoríu voru mættir við þegar beiðni um endurupptöku gerðarinnar var tekin fyrir.

Gerplustræti krafðist ógildingar aðfarargerðarinnar meðal annars á þeim grunni að ekki hafi verið staðið rétt að stefnubirtingu í málinu. Stefnuvottur málsins hafi birt hana fyrir öðrum stefnuvotti sem með hafi verið í för.

Gerðinni hafi lokið með árangurslausu fjárnámi en það gefi ekki rétta stöðu af fjárhagsstöðu félagsins. Bæði Gerplustræti og Vonbrá hefðu farið fram á það að fá gerðina endurupptekna hjá sýslumanni en því var hafnað.

Gerðarbeiðandi ekki handhafi kröfunnar
Dómurinn féllst ekki á að ranglega hefði verið staðið að birtingu stefnu í málinu enda séu fordæmi fyrir því að þetta fyrirkomulag komist í gegnum nálarauga dómstóla.

Dómurinn benti hins vegar á að óumdeilt væri að krafan hefði verið framseld frá Vonbrá í febrúar 2019 og óútskýrt væri hvernig félagið gæti verið gerðarbeiðandi í máli sem varðaði kröfu sem félagið hefði selt frá sér.

„Þegar fulltrúar beggja aðila að gerðinni óskuðu eftir endurupptöku hennar var hins vegar upplýst að atvik voru með öðrum hætti og [Vonbrá] átti ekki þá kröfu sem umboðsmaður hans nýtti til að gera árangurslaust fjárnám hjá [Gerplustræti].

Raunveruleg staða var því sú að [Vonbrá] var á degi gerðarinnar ekki rétthafi þótt heimildin hefði borið það með sér, og sýslumanni var sú staða á þessum tíma kunn. Í þessu ljósi telur dómurinn að sýslumaður hefði átt að endurupptaka gerðina þegar báðir aðilar óskuðu þess,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.

Það hafi hins vegar ekki verið gert heldur hafi sýslumaður tekið tillit til mótmæla Faktoríu og litið svo á að félagið hefði brýna hagsmuni af því að gerðin fengist ekki endurupptekin. Gerðabók sýslumanns hafi ekki borið með sér hví sýslumaður hafi komist að þessari niðurstöðu.

Að mati dómsins var umrætt fjárnám markleysa og því ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að fella ákvörðunina úr gildi. Samkvæmt úrskurðarorði ber Faktoríu að greiða Gerplustræti hálfa milljón króna í málskostnað.

Heimild: Vb.is