Home Fréttir Í fréttum Mest verðhækkun íbúða í Garðabæ

Mest verðhækkun íbúða í Garðabæ

66
0
Mikil uppbygging nýbygginga hefur verið í Garðabæ síðustu ár og er minnsti munur þar og í Mosfellsbæ, á eldri og nýrri íbúðum. Mynd: Haraldur Guðjónsson

Íbúðir í miðborg Reykjavíkur ekki lengur jafnmikið dýrari en annars staðar. Nýbyggingar dýrastar í Háaleitishverfi.

Þó stöðugleiki hafi verið á íbúðamarkaði höfuðborgarsvæðisins undanfarið og verðhækkanir síðasta árs sögulega litlar hefur verðþróunin verið mjög mismikil eftir hverfum.

Þannig hefur íbúðaverð í Garðabæ hækkað mest, eða um tæp 7% í fyrra, meðan verðþróun í miðbænum virðist ekki fylgja verðþróun í öðrum hverfum að því er Hagsjá Landsbankans hefur tekið saman. Nýju íbúðirnar í Garðabæ hækkuðu um 10%.

Þannig hefur meðalhækkun síðustu fjögurra ára verið mest í Mosfellsbæ, en minnst í miðbæ Reykjavíkur, sem þýðir að svokallað miðborgar álag hefur minnkað. Íbúðir utan þess eru nú frá 9 til 31% ódýrari en þar en árið 2015 var munurinn 16 til 39%.

Ástæðan gæti þó verið að minna hefur selst af nýjum íbúðum í miðbænum í samanburði við nágrannasveitarfélögin á síðustu árum, eða að jafnaði tæplega 12% af seldum íbúðum, en um 20 til 50% í Garðabæ, Mosfellsbæ og Kópavogi.

Þó bættist við í fyrra, þegar um 24% af öllum seldum íbúðum í miðbænum voru nýbyggingar, meðan þær voru 3% árið 2017. Landsbankinn telur skýringuna vera að íbúðirnar lækkuðu um 5,4% í verði árið 2018 og svo aftur um 2,5% í fyrra. Þannig var meðalfermetraverð seldra nýbygginga 660 þúsund í fyrra í miðbænum en 718 þúsund árið 2017.

Að jafnaði seljast nýbyggingar á 24% hærra verði en eldri á hvern fermetra, eða á 552 þúsund á móti 444 þúsund. Þannig eru nýjar íbúðir dýrastar á móti eldri í Háaleitishverfi, meðan þær eru um 10 til 12% dýrari í Mosfellsbæ og Garðabæ.

Heimild: Vb.is