Home Fréttir Í fréttum Fyrsta skóflustunga að nýbyggingu á Alþingisreit tekin þriðjudaginn 4. febrúar

Fyrsta skóflustunga að nýbyggingu á Alþingisreit tekin þriðjudaginn 4. febrúar

145
0
Mynd: Alþingi

Fyrsta skóflustunga að nýbyggingu á Alþingisreit verður tekin þriðjudaginn 4. febrúar kl. 15. Gert verður hlé á þingfundi á meðan Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri taka fyrstu skóflustunguna.

Verktakafyrirtækið Urð og grjót ehf. sér um jarðvegsvinnu en fyrirtækið átti lægsta tilboð í þann verkþátt framkvæmdanna þegar hann var boðinn út sl. haust.

Fyrirtækið S. Helgason átti lægsta tilboð í vinnslu á steinklæðningunni sem verður utan á húsinu en sú vinna var boðin út í ágúst 2019.

Útboð í vinnu við aðalbyggingu og tengiganga verða auglýst í vor og er gert ráð fyrir að uppsteypa hefjist í haust. Verklok eru áætluð í febrúar 2023.

Alþingisreiturinn svonefndi afmarkast af Kirkjustræti, Vonarstræti og Tjarnargötu og nýbyggingin rís á horni Vonarstrætis og Tjarnargötu. Í henni verða m.a. skrifstofur þingmanna, aðstaða þingflokka, fundarherbergi nefnda og skrifstofur starfsmanna þeirra.

Þessi starfsemi er nú í leiguhúsnæði við Austurstræti. Byggingin verður um 6.000 fermetrar og í fjármálaáætlun eru áætlaðir 4,4 milljarðar króna til verkefnisins.

Heimild: Althingi.is