Home Fréttir Í fréttum Átta handteknir í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu við Seljaveg

Átta handteknir í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu við Seljaveg

212
0
Auk lögreglu komu fulltrúar Vinnumálastofnunar, Vinnueftirlitsins og Ríkisskattstjóra að aðgerðum við Seljaveg. Mynd: Vísir/Frikki

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók átta erlenda ríkisborgara í umfangsmiklum aðgerðum á framkvæmdasvæði við Seljaveg nærri Héðinshúsi í Vesturbæ Reykjavíkur í morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru mennirnir handteknir vegna gruns um að hafa framvísað fölsuðum skilríkjum við skráningu í Þjóðskrá.

Stundin greindi fyrst frá málinu í dag og lýsti í umfjöllun sinni umfangsmikilli sameiginlegri aðgerð lögreglu, Ríkisskattstjóra, Vinnueftirlitsins og Vinnumálastofnunar við nýbyggingu á Seljavegi, þar sem staðið hafa yfir framkvæmdir.

Skúli Jónsson yfirlögregluþjónn í Hafnarfirði segir í samtali við Vísi að á annan tug lögreglumanna hafi verið á vettvangi á Seljavegi í morgun að fylgja eftir rannsókn vegna gruns um áðurnefnt skjalafals.

Rannsóknin sé að frumkvæði lögreglu en fulltrúar frá áðurnefndum stofnunum taki þátt í aðgerðum.

Lögregla rannsakar nú skilríki mannanna og ferðir þeirra hingað til lands. Skúli segir mennina nýkomna í vörslu lögreglu og rannsókn málsins á frumstigi.

 

Heimild: Visir.is