Home Fréttir Í fréttum Einar nýr stjórnar­for­maður Upp­hafs fasteignafélags

Einar nýr stjórnar­for­maður Upp­hafs fasteignafélags

310
0
Upphaf hefur frá stofnun byggt og selt yfir 400 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og hefur nú tæplega 280 íbúðir í byggingu. Mynd: Frettabladid.is

Ný stjórn Upphafs fasteignafélags, sem er í eigu fagfjárfestasjóðsins GAMMA:Novus, var kjörin á hluthafafundi í nóvember síðastliðnum. Einar Sigurðsson fjárfestir er nýr stjórnarformaður félagsins.

Einar Sigurðsson, fjárfestir og sonur Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélags Vestmannaeyja, var nýverið kjörinn stjórnarformaður Upphafs fasteignafélags, sem er í eigu fagfjárfestasjóðsins GAMMA: Novus.

Aðrir sem hafa tekið sæti í stjórn félagsins eru þeir Júlíus Þorfinnsson, framkvæmdastjóri Stoða, Magnús Ingi Einarsson, framkvæmdastjóri bankasviðs Kviku, Magnús Már Leifsson, lögmaður hjá Kviku, og Máni Atlason, framkvæmdastjóri GAMMA.

Eins og kunnugt er voru sjóðsfélagar Novus upplýstir um það síðasta haust að við endurmat á eignum og áætlunum sjóðsins væri eigið fé, sem þremur mánuðum áður var metið á um 3,9 milljarða króna, nú aðeins talið vera um 42 milljónir króna.

Þá var gengi sjóðsins, sem fór hæst í 250 í lok árs 2017, lækkað niður í 2 en það bráðabirgðagengi byggði á áformum um milljarð króna viðbótarfjármögnun í formi forgangsskuldabréfs sem kláraðist nokkrum vikum síðar.

Sú fjármögnun kom meðal annars frá Kviku, eiganda GAMMA, en bankinn hafði skuldbundið sig til þess að sölutryggja skuldabréfaútgáfuna að fjárhæð samtals 500 milljónir.

Félagið hefur frá stofndegi byggt og selt yfir 400 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og hefur nú tæplega 280 íbúðir í byggingu.

Greint var frá því í Markaðinum á þeim tíma að félag í eigu Guðbjargar hefði fjárfest í Novus fyrir hundruð milljóna en félagið var auk þess umsvifamikið í hópi fjárfesta sem lánuðu samtals 2,7 milljarða króna til Upphafs í byrjun júní í fyrra.

Stoðir, sem er stærsta fjárfestingafélag landsins, tóku einnig þátt í umræddu skuldabréfaútboði og fjárfestu í því fyrir samtals 500 milljónir króna.

Heimild: Frettabladid.is