Home Fréttir Í fréttum Fjárfesting í Upphafi verstu viðskipti ársins

Fjárfesting í Upphafi verstu viðskipti ársins

147
0
Framvinda margra verkefna Upphafs reyndist ofmetin og kostnaður langt yfir áætlunum. Mynd: Frettabladid.is

Kaup á skuldabréfum fasteignafélagsins Upphafs, sem var í stýringu hjá GAMMA, um mitt ár fá þann vafasama heiður að vera verstu viðskipti ársins 2019 að mati dómnefndar Markaðarins.

„Fjárfestar voru varla búnir að greiða fyrir bréfin þegar það uppgötvaðist að eigið féð var ekkert og útgefandinn í gríðarlegri lausafjárþröng,“ sagði einn álitsgjafi Markaðarins.

„Vonandi rætist úr málum en það er erfitt að benda á nokkurn hlut sem var vel gerður í þessum viðskiptum,“ bætti hann við.

Sjóðfélagar Novus, sem var í stýringu hjá GAMMA, voru í lok september upplýstir um að við endurmat á eignum og áætlunum sjóðsins væri eigið fé, sem þremur mánuðum áður var metið á um 3,9 milljarða, nú aðeins talið vera um 42 milljónir.

Sjóðfélagar Novus skipta tugum og þeirra á meðal eru ýmsir stofnanafjárfestar. Þeir þurftu að afskrifa eign sína í sjóðnum að fullu.

Hópur fjárfesta hafði lánað Upphafi 2,7 milljarða króna í tengslum við skuldabréf til tveggja ára sem félagið gaf út í byrjun júní á þessu ári.

Á meðal stærstu skuldabréfaeigenda Upphafs eru fjárfestingarfélagið Stoðir, tryggingafélagið TM og félag í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleigenda Ísfélags Vestmannaeyja.

„Þó ekki sé beinlínis hægt að kalla Gamma:Novus verstu viðskipti ársins var skandall ársins klárlega þar á ferðinni,“ sagði í rökstuðningi eins dómnefndarmanns.

Þegar staða Upphafs hafði verið dregin fram í dagsljósið samþykktu helstu skuldabréfaeigendur að leggja félaginu til aukið fjármagn með kaupum á forgangsskuldabréfi að fjárhæð samtals einn milljarður króna.

Helming útgáfunnar keypti Kvika banki, sem tók við rekstri Upphafs eftir að gengið hafði verið frá kaupum á GAMMA í vor.

Samhliða því var skilmálum skuldabréfanna breytt þannig að fastir vextir lækkuðu með afturvirkum hætti úr 15-16,5 prósentum niður í 6 prósent en urðu jafnframt tengdir afkomu fasteignafélagsins.

„Það var margt sem klikkaði í rekstri Novus, fasteignaþróunarsjóðs GAMMA. Ekki bara starfsmenn GAMMA heldur aðrir í keðjunni, til dæmis verkfræðistofur, enda var eftirlitinu ábótavant,“ sagði Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, í nýlegu viðtali við Markaðinn.

„Það er augljóst að ekki var gætt aðhalds í kostnaði. Eflaust skiptir þar máli að um var að ræða sjóðsstjóra í fasteignasjóði í stað reynds byggingarverktaka.

Þetta kennir okkur að jafnvel þótt menn séu flinkir í að rýna í hagtölur og markaðinn þá skiptir önnur reynsla líka máli.“

Í júlí var hafin vinna að því að endurmeta stöðu Novus og Upphafs sem leiddi í ljós að framvinda margra verkefna Upphafs hefði reynst ofmetin, kostnaður við framkvæmdir væri langt yfir áætlunum og þá hefðu fyrri matsaðferðir ekki að fullu tillit fjármagnskostnaðar félagsins.

Verkfræðistofa sem vann fyrir Upphaf sagði að kostnaðaráætlun vegna verkefnis á Kársnesi hefði verið virt að vettugi. Upphaf hefði farið eftir annarri kostnaðaráætlun sem var unnin innan félagsins og vanáætlað kostnað verulega.

Upphaf er á hápunkti framkvæmda með um 280 íbúðir í byggingu og eru áætluð lok allra framkvæmda í árslok 2020.

„Undir verstu viðskiptin er erfitt að horfa framhjá kaupum Kviku á GAMMA og vanmati á þeim skaðlegu orðsporsáhrifum sem kaupin höfðu á Kviku.“

Þá nefndu nokkrir álitsgjafar Markaðarins kaup Kviku banka á GAMMA sem verstu viðskipti ársins en endanlega var gengið frá þeim í mars.

„Meðan önnur rekstrarfélög biðu eftir símtali frá FME, þar sem yrði óskað eftir að taka yfir rekstur sjóða GAMMA vegna lausafjárskorts, þá sá Kvika ástæðu til að borga fyrir reksturinn sem var augljóslega kominn í veruleg vandræði og hefur valdið Kviku miklum skaða og ímyndarhnekk,“ sagði einn álitsgjafi um kaupin.

„Undir verstu viðskiptin er erfitt að horfa framhjá kaupum Kviku á GAMMA og vanmati á þeim skaðlegu orðsporsáhrifum sem kaupin höfðu á Kviku, Júpíter og önnur rekstrarfélög og sjóði í stýringu innan samstæðunnar,“ sagði annar.

 

Heimild: Frettabladid.is