Home Fréttir Í fréttum Hús­næðis- og mann­virkja­stofnun tekur til starfa um áramót

Hús­næðis- og mann­virkja­stofnun tekur til starfa um áramót

214
0
Björn Karls­son. Ljós­mynd/​Aðsend

Alþingi afgreiddi á dögunum lög um stofnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem verður til við sameiningu Mannvirkjastofnunar og Íbúða­lánasjóðs og tekur til starfa um áramót.

Lýkur þar með níu ára sögu Mannvirkjastofnunar sem undirritaður hefur veitt forstöðu frá stofnun 1. janúar 2011. Starfsemi Mannvirkjastofnunar skiptist í þrjá meginþætti; byggingarmál, eldvarnir og rafmagnsöryggismál.

Til þess að opinbert eftirlit sé einsleitt á landsvísu og gagnsætt er mikilvægt að yfirvöld setji fram skýrar og samræmdar reglur með nákvæmum lýsingum á því hvernig eftirlitið fari fram.

Reglur þessar eru gefnar út í svokölluðum skoðunarhandbókum. Skoðunarhandbækur tryggja einsleitt og samræmt eftirlit en stórauka einnig möguleika framkvæmdaaðila til að stunda eigið eftirlit. Þó sérstaklega ef þær eru á rafrænu formi og skila niðurstöðum úttekta beint inn í rafrænar gáttir.

Sú er raunin með rafmagnsöryggisgátt og eldvarnagáttina Brunavörð sem reynst hafa ákaflega vel. Og segja má að bylting hafi orðið í stjórnsýslu byggingarmála þegar tekin var í notkun rafræn byggingargátt, en þar eru vistuð öll gögn vegna mannvirkja allt frá umsókn um byggingarleyfi til lokaúttektar og öll samskipti aðila vegna þessa.

Byggingareftirlit Reykjanesbæjar og fleiri sveitarfélaga fer nú alfarið fram í gegnum byggingargáttina.

Það er von mín að ný stofnun fylgi af metnaði eftir þessari ánægjulegu þróun opinbers eftirlits og vinni áfram af einurð að eldvörnum, byggingar- og rafmagnsöryggismálum.

Nú þegar ljóst er að Mannvirkjastofnun í núverandi mynd mun heyra sögunni til á nýju ári vil ég færa starfsfólki stofnunarinnar og öðru samferðafólki bestu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf sem brunamálastjóri til tíu ára og síðan forstjóri Mannvirkjastofnunar. Hinni nýju stofnun og starfsfólki hennar óska ég alls velfarnaðar. Sjálfur lít ég stoltur um öxl og hverf til nýrra starfa.

Höfundur: Dr. Björn Karlsson

Heimild: Frettabladid.is