Home Fréttir Í fréttum Eigendur í Gamma Novus ánægðir með fund í gær

Eigendur í Gamma Novus ánægðir með fund í gær

127
0
Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV

Úttekt á því hvað fór úrskeiðis hjá fasteignafélaginu Upphafi og sjóðnum Gamma Novus verður tilbúin fyrir áramót. Sjóðurinn rýrnaði næstum upp til agna á skömmum tíma. Eigendur í sjóðnum voru upplýstir um gang mála hjá Gamma í gær og munu hafa verið ánægðir með hann.

Kvika banki hf. sem eignaðist GAMMA Capital Management hf. í mars tilkynnti um alvarlega stöðu Gamma Novus og Gamma Anglia þann 30. sept. Gengi þeirra fært niður og nýir sjóðsstjórar skipaðir.

Gamma Novus rekur fasteignafélagið Upphaf sem er með 277 íbúðir í byggingu. Upphaf sótti 2,7 milljarða í skuldabréfaútboði í vor. Skuldabréfaeigendurnir komu að vonum af fjöllum þegar upplýst var um stöðu sjóðsins.

Þeir samþykktu skilmálabreytingar fyrr í október svo hægt yrði að sækja viðbótarfjármögnun upp á einn milljarð króna. Afar stuttu mun vera í að gengið verði að fullu frá viðbótarláninu.

Þeir hlutdeildarskírteinishafar, sem Fréttastofa náði tali af í gær, voru ánægðir með fundinn með forsvarsmönnum Gamma í gær.

Á honum var ákveðið að skipa rýnihóp til þess að athuga ástæður þess að milljarða sjóður varð næstum einskis virði á skömmum tíma. Garðar G. Gíslason lögmaður verður fulltrúi hluta af hlutdeildarskírteinishöfum í hópnum.

Sérfræðingar hjá Grant Thornton gera nú úttekt á Novus sjóðnum og Upphafi. Úttektin verður tilbúin fyrir áramót. Margar íbúðir Upphafs eru þegar komnar í sölu. Stefnt er að því að allar íbúðirnar verði tilbúnar á næsta ári eða í síðasta lagi í upphafi þess þarnæsta.

Heimild: Ruv.is