Home Fréttir Í fréttum Byggingatími lengstur í Reykjavík

Byggingatími lengstur í Reykjavík

113
0
Mynd: vb.is

Sterkar vísbendingar eru um að byggingatími íbúða á höfuðborgarsvæðinu hafi lengst frá hruni.

Tímatöf á framboðshlið fasteignamarkaðar er þekktur og óhjákvæmilegur hlutur, enda ekki að því hlaupið að reisa og fullbúa fasteign. Þetta verður til þess að markaðurinn er lengi að bregðast við breytingum á eftirspurnarhliðinni.

„Tímatafir eru ekki bara kostnaðarsamar heldur valda þær því að erfiðara verður að mæta eftirspurninni með skilvirkum hætti.

Í fullkomnum heimi myndu verktakarnir horfa í gegnum tímabundna niðursveiflu og halda framboðinu stöðugu,“ segir Elvar Orri Hreinsson, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka.

Málið sé hins vegar ekki svo einfalt. „Þetta eru ekki bara þeir sem fá bakþanka. Lánveitendur, opinberir aðilar og aðrir hagsmunaaðilar virðast líka bremsa sig svolítið af.“

Ekki eru til nákvæmar tölur um meðalbyggingatíma íbúða, en flest bendir til þess að hann hafi lengst umtalsvert. Hlutfall fullgerðra íbúða af íbúðum í byggingu síðustu 8 ár er aðeins 38%, samanborið við 58% frá aldamótum fram að hruni, og hefur aldrei verið lægra.

„Það hefur átt sinn þátt í að skapa þessa miklu þenslu fyrir tveimur árum síðan.“ Gangi spá Samtaka iðnaðarins um byggingamagn næstu ár eftir mun hlutfallið þó hækka nokkuð næstu árin.

„Aukið flækjustig í skipulagsmálum, íþyngjandi, flókið og tímafrekt regluverk, skortur á rafrænni stjórnsýslu, áhersla á þéttingu byggðar, takmarkað lóðaframboð og fleiri þættir valda að mati verktaka lengri byggingartíma,“ segir í nýlegri skýrslu Íslandsbanka um fasteignamarkaðinn.

Sé Reykjavík skoðuð sérstaklega er hlutfall fullgerðra íbúða af íbúðum í byggingu aðeins 32%, sem þýðir að önnur sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins eru töluvert yfir meðaltalinu, en mikil uppbygging hefur átt sér stað í þeim.

Á síðasta aldarfjórðungi hefur íbúðafjöldi þeirra tvöfaldast, og hlutfall íbúða í Reykjavík af höfuðborgarsvæðinu í heild lækkað úr 70% í 60%. Ekkert lát virðist vera á þeirri þróun, í Reykjavík eru nú byggðar mun færri íbúðir en á árum áður, og hlutfallið á höfuðborgarsvæðinu margfalt undir þeim 60% sem það þyrfti að vera til að viðhalda hlutdeild borgarinnar.

Heimild: Vb.is