Home Fréttir Í fréttum Hundruð milljóna framkvæmdir við höfnina í Vestmannaeyjum

Hundruð milljóna framkvæmdir við höfnina í Vestmannaeyjum

164
0
Vestmannaeyjahöfn. Ljósmynd/TMS

Í samgönguáætlun fyrir árin 2020-2024 kemur fram hvaða framkvæmdir til stendur að veita fjármagni í á næstu fimm árum.

Tvö verk eru þar tiltekin í Vestmannaeyjahöfn og er kostnaður þeirra metin á samtals 460 milljónir króna.

Um er að ræða annars vegar nýtt stálþil við á Skipalyftukant og hins vegar lenging á Nausthamri til austurs skv. gildandi deiliskipulagi hafnarsvæðis, segir Ólafur Snorrason, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar og hafnarstjóri. Hlutur ríkissjóðs í þessum framkvæmdum er 60% á móti 40% hlutdeild hafnarsjóðs.

Skipalyftukantur er ónýtur
Fram kom í greinargerð frá Vestmannaeyjahöfn til ráðuneytisins að Skipalyftukantur sé ónýtur og að á döfinni sé að endurnýja stálþil og þekju. Kanturinn var smíðaður 1982 og hefur verið notaður við viðhaldsvinnu.

Dýpka þarf við kantinn en hönnunardýpi í dag er einungis 7 metrar. Einnig varð tjón við austurenda á Skipalyftukanti árið 2017 og er þilið á þeim kafla ónýtt. Búið er að kaupa stálþil skv. forskrift siglingasviðs Vegagerðarinnar en unnið er að hönnun og útboðsgögnum.

Framlengja Nausthamarsbryggju um 70 metra í austur
Í kjölfar aukinna umsvifa við móttöku farþegaskipa og vegna stækkunar fiskiskipa er staðan orðin þannig að móttaka farþegaskipa og löndun uppsjávarafla er farið að rekast á.

Því hefur verið skoðað að framlengja Nausthamarsbryggju um 70 metra í austur svo hægt sé að þjónusta farþegaskip ásamt uppsjávarskipum.

Ef hægt er að færa löndun á uppsjávarfiski austar skapast meira svigrúm og líkur á auknum fjölda farþegaskipa. Núverandi kantur er með heildarlengd upp á 200 metra en stærstu farþegaskipin sem koma inn í höfnina eru 170 metrar og uppsjávarskipin eru 60-75 metrar.

Í töflunni hér að neðan má sjá hvað áætlað er í verkin næstu fjögur árin. Annars vegar er áætlaðir fjármunir til framkvæmda á næsta ári og svo aftur árið 2024 úr ríkissjóði. Á þessu má sjá að fjárveiting til lengingar á Naustabryggjunni kemur fyrst árið 2024.

Heimild: Eyjar.net