Home Fréttir Í fréttum Segir 105 Miðborg ekki líkjast sjóði Gamma

Segir 105 Miðborg ekki líkjast sjóði Gamma

213
0
Mynd: 105 Miðborg

Fimm lífeyrissjóðir eiga liðlega 40 prósent hlut í fagfjárfestasjóði sem reisir húsnæði á Kirkjusandi. Þar stendur til að reisa alls 150 íbúðir auk 25 þúsund fermetra atvinnuhúsnæðis.

Íslandsbanki og Landsbankinn veita lán fyrir framkvæmdunum með sambankaláni. Hluti íbúðanna er þegar kominn í sölu.

Fagfjárfestasjóðurinn sem stendur að baki verkefninu heitir 105 Miðborg og er rekinn af Íslandssjóðum, dótturfélagi Íslandsbanka.

Á vefsíðu Íslandssjóða kemur fram að eigið fé sjóðsins er 4 milljarðar króna og heildarstærð byggingaverkefnisins er 22 milljarðar króna.

Þar kemur líka fram að í heild eru hluthafar félagsins 10 íslenskir lífeyrissjóðir, 5 vátryggingafélög og 11 fagfjárfestar.

Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsjóðum er framkvæmdafjármögnun fyrir fyrri hluta verkefnisins lokið að fullu. Fyrri hlutinn er um helmingur byggingamagns. Eftirlit með framvindu uppbygginga er stýrt af sjóðnum og lánveitendum.

Mynd: Ruv.is

Í ljósi frétta af fagfjárfestastjóðnum Gamma: Novus í síðustu viku forvitnaðist fréttastofa um stöðu 105 Miðborgar.

Gamma: Novus heldur utan um fasteignafélagið Upphaf sem reisir 277 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu.

Tilkynnt var í síðustu viku að nánast allt eigið fé sjóðsins, sem nam um 4,4 milljörðum í lok síðasta árs, hefði verið afskrifað. Ástæðurnar sem hafa verið gefnar upp eru að kostnaður við framkvæmdir verkefna á vegum Upphafs hafi verið vanmetinn og raunframvinda verkefna félagsins ofmetin.

Jónas Þór Jónasson, sjóðsstjóri hjá Íslandssjóðum, segir að 105 Miðborg sé mjög ólíkur Gamma: Novus. „105 Miðborg var stofnaður utan um eitt vel skilgreint verkefni, Kirkjusand, sem var fjármagnað að fullu áður en hafist var handa.

Auk þess hafði verið samið um fastan byggingarkostnað við öflugan stýriverktaka (ÍAV) sem ábyrgist allar framkvæmdir á Kirkjusandi. Þá má nefna að gengi sjóðsins hefur aldrei verið uppfært og gengið hefur ekki áhrif á greiðslur til umsýslu og rekstraraðila.

Strangt regluverk er um greiðsluferli innan sjóðsins ásamt tvíhliða eftirliti með framkvæmdum,“ segir í skriflegu svarið Jónasar Þórs. Eftirlitið er í höndum 105 Miðborgar og fjármögnunaraðila.

Jónas segir fjármögnun vera í samræmi við áætlanir og vel innan marka þar sem vaxtakostnaður hafi farið lækkandi samhliða lækkun stýrivaxta Seðlabankans. Hann segir félagið hafa verið að fullu fjármagnað á fyrri hluta árs 2018.

Seinni áfangi háður markaðsaðstæðum
Spurður hvort félagið hafi séð ástæðu til að endurmeta áætlanir vegna breyttra aðstæðna í efnahagslífinu segir Jónas að félagið sé stöðugt að meta horfur og áform. Ekki sé gert ráð fyrir að hefjast handa við seinni áfanga verkefnisins fyrr en markaðsaðstæður leyfa og samningar um atvinnuhúsnæði eru í höfn.

„Lagt var upp með í upphafi að félagið gæti beðið af sér stöðnun eða samdrátt í efnahagslífinu með því að; skipta byggingaráformum í hluta, fjármagna allt áður en framkvæmdir hófust og halda eiginfjárhlutfalli háu í verkefninu,“ segir i svari Jónasar.

Samkvæmt ársreikningi sjóðsins eru stærstu eigendur hans Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Lífsverk lífeyrissjóður með 11,25 prósent hlut hvor. Eignarhaldsfélagið Brimgarðar er svo með 10 prósent hlut. Brimgarðar eiga meðal annars hlut í Kviku og Heimavöllum.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur gagnrýnt Gamma harðlega eftir að upplýst var um niðurfærslur á eigin fé Gamma: Novus og Gamma: Anglia í síðustu viku. Í samtali við fréttastofu kvaðst hann ekki hafa kynnt sér rekstur 105 Miðborgar.

Heimild: Ruv.is