Home Fréttir Í fréttum 50 milljónir þarf til að endurbyggja Sunnutorg

50 milljónir þarf til að endurbyggja Sunnutorg

175
0
Skjáskot af Ruv.is

Miklu skiptir að varðveita Sunnutorg, gamla sjoppu við Langholtsveg í Reykjavík, segir arkitekt hjá Minjastofnun.

Sunnutorg var hannað af arkitekt en það heyrði til undantekninga að sjoppur væru sérstaklega hannaðar.

Húsið er mikið skemmt og talið er að það kosti allt að 50 milljónir króna að endurbyggja það.

Í apríl í fyrra gerði Reykjavíkurborg leigusamning við einkahlutafélagið Los Pollos um leigu á Sunnutorgi. Þá hélt leigutakinn að húsið væri í mun betra ástandi en kom svo á daginn. Og núna hefur borgarráð ákveðið að semja um lok þessa leigusamnings við leigutakann.

Upphaflega stóð til að leigjandinn gerði húsið upp á sinn kostnað og greiddi svo leigu í framhaldinu. Burðarvirki hússins er illa farið en þó ekki ónýtt.

Þá þarf að fjarlægja nokkrar asbestplötur. Viðbúið er að það þurfi að endurbyggja húsið og kostnaður talinn vera allt að fimmtíu milljónir króna, samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg.

Ekkert hefur verið ákveðið um framhaldið og ekki viðbúið að það verði gert á næstu vikum.

Nú hefur komið í ljós að þetta er nánast ónýtt. Finnst þér eitthvað standa í vegi fyrir því að þetta verði bara rifið?

„Já, mér finnst þetta hús hafa mikið varðveislugildi. Það er annars vegar fulltrúi fyrir ákveðna tegund bygginga, þ.e. söluturna sem settu mjög svip á Reykjavík og fleiri þéttbýlisstaði á 20. öld og er kafli í menningarsögunni sem er að hverfa alveg, sjoppumenningin.

Það sem er sérstakt við þessa tilteknu byggingu er að hún er sérhönnuð sem biðskýli og söluturn fyrir Strætisvagna Reykjavíkur. Og það sem meira er að það var einn kunnasti arkitekt þjóðarinnar Sigvaldi Thordarson sem teiknaði þetta hús.

Húsið ber mjög augljós sérkenni hans byggingalistar,“ segir Pétur H. Ármannsson, sviðsstjóri og arkitekt hjá Minjastofnun Íslands.

Var það oft að sjoppurnar voru sérhannaðar af arkitektum?
„Ég held að þetta hafi nánast verið undantekning. Yfirleitt voru þær í öðrum byggingum eða þá í einhverjum öðrum skúrum sem voru ekkert sérstaklega mikið hannaðir. Þannig að ég held að þetta sé nánast einsdæmi,“ segir Pétur.

Sunnutorg er eina strætóskýlið sem teiknað er af arkitekt og hefur ekki verið rifið. Sunnutorg var teiknað 1958 og byggt ári seinna þegar bílar voru fjarri því til á öllum heimilum.

„Það notuðu allir almenningssamgöngur og fóru jafnvel neðan úr bæ og hingað í hádegismat og fóru svo aftur í vinnuna,“ segir Pétur.

Bara heim í hádegismat með strætó og svo aftur í vinnuna?
„Já, það hef ég heyrt,“ segir Pétur.

Heimild: Ruv.is