Home Fréttir Í fréttum Lægra lóðaverð tafið uppbyggingu

Lægra lóðaverð tafið uppbyggingu

215
0
Mynd: Haraldur Guðjónsson/vb.is

Hugmyndir um breytingar á lögum um hinar félagslegu almennu íbúðir voru settar fram til að bregðast við aðstæðum á íbúðamarkaði á landsbyggðinni þar sem íbúðaverð er oft ekki nógu hátt miðað við byggingarkostnað.

Víða úti á landi hefur skapast misvægi milli bæði byggingarkostnaðar og markaðsvirðis, á sama tíma og laun þeirra sem vantar húsnæði eru oft hærri en tekjumörk fyrir stofnfjárframlög til uppbyggingar leiguíbúða miða við.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er tillögum að breyttum lögum ætlað að bregðast við þessum vanda.

Ein þeirra breytinga sem líkleg er til að geta komið sér vel fyrir sveitarfélög úti á landi, ef tillögurnar ná fram að ganga, er sú hugmynd að ekki einungis geti sveitarfélög lagt fram andvirði lóða sem hluta af sínu framlagi heldur einnig vannýtt húsnæði sem hægt sé að breyta í leiguíbúðir.

„Í lögunum núna geta þau ekki fengið stofnframlag út á það að gera breytingar á húsnæði eða kaup á húsnæði sem þegar er til staðar, sem gæti komið sér sérstaklega vel á svæðum þar sem lóðaverð er mjög lágt.

Sveitarfélögin hafa þá oft þurft að leggja fram meira fjármagn á móti sem auðvitað getur reynst mörgum þeirra erfitt,“ segir Sigrún Ásta Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri greininga og áætlanasviðs hjá Íbúðalánasjóði.

„Þetta eru stærstu breytingarnar en síðan eru önnur atriði eins og fyrirkomulag útgreiðslu stofnframlagsins, að það verði heimilt að greiða út allt að 75% af framlaginu við samþykkt umsóknar en ekki helming eins og nú. Afgangurinn fáist svo þegar íbúð hefur náð ákveðnu byggingarstigi en ekki bara við gerð leigusamninga eins og nú.

Síðan er í skoðun að búa til einhvers konar styrkjakerfi sem myndi byggja á norskri fyrirmynd, en þar hafa tilraunaverkefni í þá átt að koma hreyfingu á markaðinn á ákveðnum svæðum með styrkjum gefið góða raun og markaðurinn tekið við sér í kjölfarið þegar einkaaðilar átta sig á að eftirspurn er til staðar á svæðinu.“

Annað sem mun geta komið sér vel fyrir húsnæðismarkaðinn víða úti á landi er uppbygging íbúða fyrir eldri borgara. „Í tilraunaverkefninu völdum við eitt sveitarfélag sem lýsti því í umsókninni að mesta þörfin hjá þeim var á húsnæði fyrir eldra fólk, en ef það fengist þá myndi það geta losað um stóru einbýlishúsin sem yngra fólkið gæti þá flutt inn í og þannig búið til ákveðna hringrás,“ segir Sigrún Ásta.

„Eitt af því sem við höfum heyrt mikið talað um í þessu samhengi er hve dýrt það er að byggja nýtt sérhæft húsnæði fyrir eldri borgara sem séu skiljanlega ekki endilega tilbúnir að borga mikið með sér þegar þeir selja oft stóru einbýlishúsin sín ofan á að borga leigu. Verkefnið felst því í að skoða hvernig við getum komið til móts við sveitarfélög í þessari stöðu. Loks skoðuðum við eitt sveitarfélag þar sem búist er við mikilli aukinni eftirspurn vegna tilkomu nýs stórs atvinnurekenda og hvernig hægt væri að bregðast skjótt við því.

Svipað var svo uppi á teningnum í samvinnuverkefninu með Dalabyggð og Vesturbyggð, þar sem skortur á húsnæði hefur staðið atvinnuuppbyggingu fyrir þrifum.“

Eitt af sveitarfélögunum í tilraunaverkefninu, Snæfellsbær, var svo valið með tilliti til þess að ná betri nýtingu á húsnæði í eigu Bríetar.

Það er leigufélag í eigu Íbúðalánasjóðs sem heldur utan um rekstur íbúða sjóðsins úti á landi sem urðu eftir í eignasafni sjóðsins við íbúðasölu síðustu ára. „Í einhverjum tilfellum eru eignir Íbúðalánasjóðs stór einbýlishús sem væru þá óhentugar leiguíbúðir, þannig að verið er að skoða hvort ekki væri hægt að skipta þeim upp í fleiri og hagkvæmari íbúðir, eða skipta þeim út fyrir hagkvæmari eignir á svæðinu,“ segir Sigrún Ásta.

„Jafnframt hefur verið skoðað og er það meðal tillagnanna sem lagðar hafa verið fram, að Bríet komi að nýbyggingum í samvinnu við sveitarfélög. Ef þau vilja byggja hús með nokkrum íbúðum gæti Bríet skuldbundið sig til að kaupa eina þeirra og þannig væri áhætta sveitarfélagsins að verkefninu lágmörkuð.“ Meðal tillagna er jafnframt rýmkun á skilyrðum um að lögaðilar sem leigi húsnæðið út séu einvörðungu í rekstri sem ekki sé í hagnaðarskyni. Vegna óhagræðis af smæð samfélaga verði þá hægt að veita leigufélögum undanþágu um að reka bæði hefðbundnar almennar íbúðir á einkamarkaði og hins vegar óhagnaðardrifnar íbúðir. Einungis þrjár stuttar en jákvæðar umsagnir bárust um tillögurnar í samráðsgátt stjórnvalda.

Heimild: Vb.is