Home Fréttir Í fréttum Múrað yfir um­merki um skemmd­ar­verk

Múrað yfir um­merki um skemmd­ar­verk

105
0
Frá fram­kvæmd­um við Ak­ur­eyr­ar­kirkju í dag. Mynd: mbl.is/Þ​or­geir

„Við erum að út­búa sér­staka brynju utan á kirkj­una, til þess að und­ir­búa okk­ur und­ir enda­lok al­heims­ins,“ seg­ir Ólaf­ur Rún­ar Ólafs­son, formaður sókn­ar­nefnd­ar Ak­ur­eyr­ar­kirkju, í sam­tali við mbl.is.

Hann bæt­ir því síðan snögg­lega við að hann sé að sjálf­sögðu að grín­ast, og hlær.

Hann út­skýr­ir svo fyr­ir blaðamanni að vinna sé kom­in af stað við að múra nýtt ytra byrði á Ak­ur­eyr­ar­kirkju, þetta svip­mikla mann­virki, sem varð eins og þrjár aðrar kirkj­ur í bæn­um fyr­ir skemmd­ar­verk­um í árs­byrj­un 2017.

Ómögu­legt reynd­ist að má um­merki um skemmd­ar­verk­in að öllu leyti af kirkj­unni, þó að ým­is­legt hefði verið reynt.

„Niðurstaðan var sú að það væri ekki hægt að gera þetta öðru­vísi held­ur en með því að setja al­veg nýja klæðningu utan á kirkj­una. Það er auðvitað afar dýrt og þarfn­ast mik­ils und­ir­bún­ings. Bæði þurfti að finna viðeig­andi efni utan á kirkj­una og eins að sækja pen­inga eitt­hvert. Við feng­um styrki frá jöfn­un­ar­sjóði sókna og húsafriðun­ar­sjóði, sem gerði okk­ur kleift að byrja á þess­um fram­kvæmd­um og það er það sem er í gangi núna, loks­ins, þetta löngu seinna.“

Hvim­leitt þegar krotið sást á brúðkaups­mynd­um
Ólaf­ur Rún­ar seg­ir fram­kvæmd­ina hafa gengið afar vel síðustu daga og að iðnaðar­menn hafi staðið vakt­ina í blíðskap­ar­veðri. Ein­hver litamun­ur mun verða á ytra byrði kirkj­unn­ar eft­ir þetta fyrsta stig fram­kvæmda, en nú er hið minnsta búið að afmá skemmd­irn­ar af kirkj­unni og múra yfir þau svæði þar sem þær voru enn sýni­leg­ar að ein­hverju leyti í múr­húðinni.

„Múr­ar­arn­ir munu sjá til þess að það verði sóma­sam­lega frá þessu gengið, með því að skipta áföng­um upp þannig að það verði ekki áber­andi litamun­ur, það verður farið í suður­hlið og fram­hliðina núna og svo von­andi á næsta ári eða næstu tveim­ur árum verður hægt að klára þetta,“ seg­ir Ólaf­ur og bæt­ir við að það hafi verið óskemmti­legt að horfa upp á um­merk­in um skemmd­ar­verk­in.

„Það er svo ein­kenni­legt, þær eru meira áber­andi á ljós­mynd­um held­ur en þegar maður stend­ur sjálf­ur fyr­ir utan kirkj­una,“ seg­ir Ólaf­ur. Sér­stak­lega seg­ir hann að hafi verið hvim­leitt þegar að um­merki um veggjakrotið á ytra byrði kirkj­unn­ar hafi sést á brúðkaups­mynd­um nýgifts fólks.

Hann seg­ir að heild­ar­kostnaður við þess­ar viðgerðir á Ak­ur­eyr­ar­kirkju verði um það bil 20 millj­ón­ir, þegar allt er talið sam­an.

Heimild: Mbl.is