Home Fréttir Í fréttum Ákvörðun um „framandi“ háhýsi felld úr gildi

Ákvörðun um „framandi“ háhýsi felld úr gildi

193
0
Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink

Úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun borgarráðs frá því í júní á síðasta ári þar sem breyting á deiliskipulagi fyrir hluta Skúlagötusvæðis var samþykkt.

Þar stóð til að reisa sjö hæða byggingu. Húsfélag Skúlagötu 20 kærði ákvörðunina til nefndarinnar en húsfélagið taldi bygginguna vera framandi og sagði að útsýni frá Skúlagötu til Akrafjalls og Skarðsheiðar myndi glatast ef hún yrði að veruleika.

Upphaflega var gert ráð fyrir að húsið, sem átti að rísa við Frakkastíg 1, yrði átta hæðir. Skipulagsstofnun gerði athugasemdir við það skipulag og benti á að innan Hringbrautar væri ekki gert ráð fyrir húsum hærri en fimm hæðir nema á skilgreindum þróunarsvæðum og umræddur götureitur væri ekki skilgreindur sem slíkur.

Þá var á það bent að Esjan væri eitt helsta kennileiti borgarinnar og mikilvægt væri að rjúfa ekki „sjónása að henni frá fjölförnum stöðum.“ Skipulagsstofnun gagnrýndi jafnframt svör borgarinnar vegna athugasemda um heildarsvip byggðar og taldi þau ekki trúverðug.

Hvorki útsýnisskerðing né vindáhrif hefðu verið metin með fullnægjandi hætti.

Borgin brást við með því að lækka bygginguna um eina hæð en það dugði ekki til að lægja óánægjuraddir íbúa við Skúlagötu 20 sem kærðu skipulagið til úrskurðarnefndarinnar.

Þeir sögðu að útsýni til norðurs og vesturs væri einstakt með sýn út á Faxaflóa og yfir á Snæfellsnes með kvöldsól og miðnætursól að sumri. Ekkert mat hefði farið fram á útsýnisskerðingu og ekkert tilefni væri til að setja nýja byggingu sem væri bæði framandi í formi og efnisvali á milli núverandi þyrpinga.

Úrskurðarnefndin segir að í ljósi þess að borgin hafi ekki fært nein rök fyrir því að víkja frá fimm hæða hámarkshæð bygginga á svæðinu og ekki fjallað um möguleikann að hafa inndregnar hæðar sé hæð fyrirhugaðrar byggingar að Frakkastíg 1 í andstöðu við Aðalskipulag Reykjavíkur.

Hin kærða ákvörðun sé því slíkum annmörkum háð að ekki sé annað hægt en að ógilda hana.

Heimild: Ruv.is