Home Fréttir Í fréttum Vestur­Verk hefur fram­kvæmdir þrátt fyrir kæruna

Vestur­Verk hefur fram­kvæmdir þrátt fyrir kæruna

231
0
Beltagrafan var mætt á hálsinn á Eyri við Ingólfsfjörð í gærkvöldi. Greint var frá kærunni snemma í gær. Mynd/Guðmundur Arngrímsson /frettabladid.is

VesturVerk hefur hafið framkvæmdir á Eyri við Ingólfsfjörð þrátt fyrir að landeigendur Drangavíkur hafi kært leyfi þeirra fyrir framkvæmdum á Hvalárvirkjun.

VesturVerk hefur hafið framkvæmdir á Eyri við Ingólfsfjörð þrátt fyrir að landeigendur Drangavíkur hafi kært leyfi þeirra fyrir framkvæmdum á Hvalárvirkjun. Landeigendur fóru fram á að úrskurðarnefnd stöðvi yfirvofandi framkvæmdir á meðan málið yrði tekið fyrir.

Þrátt fyrir þetta var beltagrafa mætt á hálsinn við Eyri seint í gærkvöldi. Maður nokkur, sem býr á svæðinu, mætti henni þar í gærkvöldi og tók nú eftir því í dag að grafan var byrjuð að vinna.

Samkvæmt upplýsingum frá Guðmundi Arngrímssyni, íbúa á Ströndum hefur verktaki gröfunnar staðfest að hann starfi samkvæmt samningi sem gerður var milli Vegagerðarinnar og VesturVerks.

Samningurinn var gerður nú fyrr í þessum mánuði en í honum felst að VesturVerk taki við veghaldi Ófeigsfjarðar næstu fimm árin.

Svona var um að litast á Eyri við Ingólfsfjörð í dag. Mynd/Guðmundur Arngrímsson /frettabladid.is

Framkvæmdirnar eru liður í undirbúningi rannsókna sem eiga að hefja næsta sumar áður en VesturVerk getur farið að virkja Hvalá.

Þannig þarf að styrkja Ófeigsfjarðarveg og breyta honum á köflum til að taka við þungaumferð sem fylgir rannsóknarborum og fleiri þungavinnuvélum sem þarf að koma á staðinn fyrir virkjunaframkvæmdirnar.

Vegurinn sem um ræðir liggur frá Strandavegi að Hvalá.

Það er því ljóst að úrskurðarnefndin sem tók við kæru landeigenda getur ekki orðið fullkomlega við ósk þeirra en eins og fyrr segir var farið fram á að nefndin stöðvaði yfirvofandi framkvæmdir á meðan málið yrði tekið fyrir.

Þær hafa nú hafist með þessu og er óljóst hvernig tekið verður á málinu.

Heimild: Frettabladid.is