Home Fréttir Í fréttum Ný gatnamót á Sæbraut við Frakkastíg

Ný gatnamót á Sæbraut við Frakkastíg

225
0
Frakkastígur verður lengdur þannig að hann nái alveg að Sæbraut. Mynd/Reykjavíkurborg

Á næstu dögum hefjast framkvæmdir við Frakkastíg og Sæbraut en stefnt er að því að tengja göturnar saman með nýjum gatnamótum.

Auk framlengingar á Frakkastígnum út að Sæbraut er stefnt að því að endurgera götuna á milli Skúlagötu og Lindargötu.

Greint er frá því á heimasíðu Reykjavíkurborgar að nýju gatnamótin verða ljósastýrð sem á að bæta öryggi gangandi vegfarenda, en margir þeirra, sérstaklega ferðamenn, fara þvert yfir Sæbrautina frá Frakkastíg að Sólfarinu og segir að þar hafi oft legið við slysum.

Þar kemur einnig fram að hluti af framkvæmdinni sé uppsetning götulýsingar, færsla á strætóbiðstöð og göngustígar.

Snjóbræðslu verður komið fyrir og lagnir veitustofnana endurgerðar. Að nýframkvæmdum loknum verður núverandi tengigata á móts við Skúlagötu 20 og það sem henni tilheyrir fjarlægt og tyrft yfir svæðið.

Fleiri framkvæmdir á Sæbraut eru á dagskrá. Tvenn önnur gatnamót verða endurbætt, annars vegar við Snorrabraut og hins vegar við Katrínartún. Umferðarljósabúnaður, gönguleiðir yfir gatnamótin og götulýsing verður endurbætt á báðum stöðum og þá verður hægri beygjurein til austurs frá Snorrabraut út á Sæbraut lögð af.

Heimild: Frettabladid.is