Home Fréttir Í fréttum 840 milljónir í ættaróðal Björgólfs

840 milljónir í ættaróðal Björgólfs

226
0
Framkvæmdir við Fríkirkjuveg 11 hafa farið nokkuð fram úr áætlun. Mynd: Haraldur Guðjónsson

Hlutafé eignarhaldsfélags Björgólfs Thors Björgólfssonar um Fríkirkjuveg 11 var aukið um 840 milljónir króna í desember.
Félagið, sem ber heitið Novator F11 ehf., hafði varið 2,4 milljörðum króna í húsið í árslok 2017.

Þar af námu endurbætur við húsið 1,7 milljörðum króna en Björgólfur greiddi Reykjavíkurborg 650 milljónir fyrir húsið árið 2008.

Þá stóð til að endurbætur á húsinu myndu kosta 400 milljónir króna. Þá var framkvæmdum hins vegar ekki lokið og má því ráðgera að hlutafjáraukningin hafi verið til að fjármagna kostnað við að gera húsið upp.

Framkvæmdir enn á lokametrunum

Í viðtali við Viðskiptablaðið í ágúst sagði Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Novator, að framkvæmdir væru á lokametrunum og vonast væri til að húsið yrði tilbúið um haustið.

Ragnhildur segir að staðan sé svipuð nú, unnið sé að lokafrágangi, en framkvæmdum er að mestu lokið.

„Það er ennþá verið að leggja lokahönd á það tímafrekasta. Það tekur bara þennan ótrúlega tíma að leggja lokahönd á þessu allra síðustu handtök til að hafa þetta allt eins og þetta var áður fyrr,“ segir Ragnhildur í samtali við Viðskiptablaðið.

Í árslok 2017 nam eiginfé Novator F11 1,9 milljörðum króna og skuldir námu hálfum milljarði króna, en Fríkirkjuvegur 11 var metinn á um 2,4 milljarða króna.

Að óbreyttu má því áætla að eftir hlutafjáraukninguna nemi eigið fé félagsins um 2,7 milljörðum króna. Fasteignamat Fríkirkjuvegs 11 er tæplega 360 milljónir króna en húsið er 1.049 fermetrar.

Dýrt að taka upp hverja skrúfu

Ragnhildur segir kostnaðinn við endurbæturnar orðinn töluverðan enda hafi verið vandað mjög til verka. „Þetta er gríðarlega dýrt og er miklu miklu dýrara þegar tekin er upp nær hver skrúfa og hún þrifin.

Það er miklu miklu dýrara að gera upp en nokkurn tímann að byggja nýtt ef menn vanda sig og þarna er verið að vanda sig,“ segir hún.

Húsið var byggt á árunum 1907-1908 af Thor Jensen, langafa Björgólfs Thors. Thor bjó þar í nærri þrjá áratugi en seldi það til Góðtemplarareglurnar árið 1942. Húsið komst í eigu Reykjavíkurborgar á sjöunda áratugnum.

Þegar Björgólfur keypti húsið af Reykjavíkurborg árið 2008 var það með þeim formerkjum að hluti hússins yrði gerður opinn almenningi með fundarsölum og safni um ævi Thors Jensen.

Ragnhildur segir að ekki sé búið að taka ákvörðun um með hvaða hætti húsið verði opið almenningi. Þó sé búið að setja upp myndir frá ævi Thors Jensen í húsinu. Efsta hæð hússins er ætluð Björgólfi Thor og fjölskyldu og hefur hann dvalið í húsinu þegar hann hefur verið staddur hér á landi.

Heimild: Vb.is