Home Fréttir Í fréttum Vildi rífa Leifsstöð

Vildi rífa Leifsstöð

282
0
Mynd: Haraldur Guðjónsson /Vb.is

Framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli hafa gengið alltof hægt en enda verið að byggja utan um gamlan kassa.

Uppbygging Keflavíkurflugvallar er stórmál fyrir íslenska ferðaþjónustu. Framkvæmdir hófust árið 2012 og hafa kostað stórfé.

Í byrjun nóvember greindi samgönguráðherra frá því í svari við fyrirspurn á Alþingi að á næstu fjórum árum, eða frá 2019 til 2022, yrði 91,4 milljarð króna farið í framkvæmdir við völlinn.

Ýmsir hafa gagnrýnt hvernig Isavia hefur staðið að málum við uppbygginguna og er Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair Group, einn þeirra. Björgólfur er í viðtali í nýju tímariti Frjálsrar verslunar.

„Uppbygging Keflavíkurflugvallar er komin það langt að það er tómt mál að tala um annað en að halda henni áfram, en auðvitað í samræmi við þá umferð sem fyrirsjáanleg er um völlinn Framkvæmdirnar hafa gengið alltof hægt.

Kannski er ástæðan sú að við erum að byggja utan um gamlan kassa,” segir Björgólfur og vísar til Leifsstöðvar, sem var fyrst tekin í notkun árið 1987.

„Það er alveg ljóst að aðstaðan í Keflavík hefur neikvæð áhrif á farþega og sérstaklega þá sem fljúga oft. Það eru dæmi um að þeir hafi hætt að fljúga hingað einfaldlega vegna þess að aðstaðan er léleg.

Það vantar gólfpláss, það er bara troðningur. Það hefur verið reynt að búta utan á þetta, búa til fjarstæði og fjölga flugvélum en kösin verður alltaf meiri og meiri inni í flugstöðinni. Vissulega er þetta verst á ákveðnum tímum yfir daginn en á sumrin hefur þetta verið dreifast töluvert mikið yfir daginn.

Þetta hefur neikvæð áhrif á ferðamenn. Bág aðstaða í Keflavík hefur líka haft neikvæð áhrif á stundvísi flugfélaga og ég get ekki ímyndað mér annað en að kraðakið hafi einnig neikvæð áhrif á verslun og þjónustu og tekjumyndunina inni í flugstöðinni.

Fólk er ekki að versla mikið þegar það getur varla gengið um. Þetta er allan hátt mjög neikvætt.

Þegar ég var hjá Icelandair þá lögðum við það til að byggð yrði alveg ný flugstöð. Þetta var áður en núverandi framkvæmdir hófust. Ég er á því að það hefði verið miklu hyggilegra.

Á sama tíma hefði vissulega þurft að fjárfesta aðeins Leifsstöð til að anna aukinni flugumferð en ef þessi leið hefði verið farin þá værum við klár með nýja flugstöð í dag og gætum rifið Leifsstöð.

Sú stöð hefði verið sokkinn kostnaður. Sokkinn kostnaður er engin hætta í viðskiptum, það er að gerast alla daga. Eitthvað sem þú gerir og eyðir peningum í í dag getur verið óþarft á morgun en fjárfestingin nýttist þér í þínum viðskiptum þann daginn.

Allra helst hefði ég reyndar viljað sjá nýja flugstöð rísa í Hvassahrauni.”

Heimild:Vb.is