Home Fréttir Í fréttum Lóðin auð og ónotuð vegna dómsmáls

Lóðin auð og ónotuð vegna dómsmáls

266
0
Mynd: Ruv.is
Þess hefur verið beðið árum saman að byggt verði við hjúkrunarheimili í Kópavogi og rýmum þannig fjölgað um ríflega sextíu. Málið hefur tafist vegna dómsmáls. Forstjóri Hrafnistu furðar sig á því að ekki hafi verið samið um lausn á málinu svo framkvæmdir geti hafist.

Óvenjumikið álag skapaðist á Landspítalanum í síðustu viku og svo mikið að öryggi sjúklinga stóð ógn af. Ástæðan að sögn forstjóra er mannekla og mikilli fjöldi hrumra eldri borgara sem bíða á spítalanum eftir að komast á hjúkrunarheimili.

Um áramót verður hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi fullklárað. Fram kom í fréttum RÚV í gær að það verði þó ekki tekið í notkun strax þar sem ekki hefur verið auglýst eftir rekstraraðila.

En þetta er ekki eina hjúkrunarheimilið sem bið verður á. Sama er uppi á teningnum í Boðaþingi í Kópavogi.

Frá því 2010 hafa yfirmenn Hrafnistu beðið þess að byggt verði við hjúkrunarheimilið í Boðaþingi.

Við það eiga að bætast við 64 hjúkrunarrými. En enn stendur lóðin auð og ónotuð. Núna eru 44 hjúkrunarrými á Hrafnistu og þjónustumiðstöð. Til stóð að byggja tvö hús til viðbótar og fjölga þannig rýmum.

Mynd með færslu
 Mynd: Ruv.is

„Núna eru liðin átta ár og miðað við ástandið í samfélaginu í dag skilur maður ekki þann drátt sem hefur orðið á þessu,“ segir Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu.

Arkitektar núverandi byggingar höfðuðu dómsmál þegar stjórnvöld ákváðu að efna til hönnunarsamkeppni um viðbygginguna.

Aðalmeðferð hefst fyrir Landsrétti á föstudag. Fram kom í svari heilbrigðisráðherra á Alþingi í gær að í fyrra létust 183 meðan þeir biðu þess að komast á hjúkrunarheimili. Núna bíða yfir þrjú hundruð og sextíu manns eftir plássi á hjúkrunarheimili.

„Ég skil nú ekki af hverju er ekki bara búið að leysa úr þessari flækju öllum í hag,“ segir Pétur.

Viðbúið er að Landsréttur dæmi í málinu í janúar.

„En eftir að dómur fellur mun taka allavega lágmark þrjú ár þar til hjúkrunarheimilið gæti opnað,“ segir Pétur.

Forráðamenn Hrafnistu í samstarfi við Heilsuvernd hafa viðrað fleiri lausnir á langri bið eftir hjúkrunarrými, eins og að nýta húsið að Urðarhvarfi 8 undir allt að 150 hjúkrunarrými.

Húsið hefur staðið ónotað frá því það var byggt 2010. Styttri tíma hefði tekið að innrétta það en að byggja nýtt heimili.

„Hugmyndin var kynnt bæði fyrir fyrrverandi heilbrigðisráðherra og núverandi hvort það væri áhugi að þetta væri kannað og sett í fulla hönnun en því miður var ekki áhugi fyrir því,“ segir Pétur.

Heimild: Ruv.is