Home Fréttir Í fréttum Basalt arkitektar hlutu á dögunum Hönnunarverðlaun Íslands

Basalt arkitektar hlutu á dögunum Hönnunarverðlaun Íslands

226
0
Mynd: Ruv.is

Hönnunarverðlaun voru afhent í fimmta sinn á Kjarvalsstöðum á dögunum. Basalt arkitektar hafa lagt ríkulega til baðmenningar og baðstaða á Íslandi.

Nýjustu dæmin eru GeoSea sjóböðin á Húsavík og hótelið The Retreat við Bláa lónið.

„Við byggðum þetta auðvitað á eldri hönnun,“ segir Sigríður Sigþórsdóttir, stofnandi Basalt, sem hefur hannað byggingar við Bláa lónið allt frá því að fyrsti áfanginn var opnaður 1999.

„Svo hafa verið endurbætur og viðbætur. Þetta má segja að sé lokahnykkurinn í heildaruppbyggingu á svæðinu.“

Hönnun sem lækkar blóðþrýstinginn

The Retreat var samvinnuverkefni Basalts, Italia Design, LISKU lýsingarhönnuði og Eflu verkfræðistofu. Hrólfur Karl Cela arkitekt segir krefjandi að vinna að svo viðamiklu verkefni í samstarfi við aðra.

Einnig þurfi að hugsa öðruvísi þegar arkitektúr og náttúru er blandað saman eins og við Bláa lónið.

„Við lásum landið í upphafi verksins og sáum hvernig væri best að koma fyrir þessum fúnksjónum sem verkkaupi vildi sjá og koma fyrir. Síðan þegar jarðvinnan hefst sér maður hvað gerist þegar landið opnast.

Í raun og verum leggjum við upp með það að þegar við komum á einhvern stað þá skiljum við þannig við að fólk fái notið þess sem var fyrir. Fólk hefur lýst því sem svo að það gengur hér inn og blóðþrýstingurinn lækkar um leið.

Það er kjarninn í þessu hjá okkur. Þetta er staður þar sem fólk á að geta afkúplað sig frá daglegu stresssi, komið hingað og lifað og notið. “

Sjóböð sem renna saman við hafið

Sigríður segir að sjóböðin á Húsavík hafi verið gjörólíkt verkefni en Bláa lónið. „En á sama tíma er verið að nýta jarðsjó sem fellur til til að byggja upp eitthvað upp fyrir íbúana og samfélagið og styrkja þá um leið ferðaþjónustu á svæðinu. Það sem er frábært er að fá tækifæri til að staðsetja sig svona nálægt hafinu.“

„Það sem var mikilvægt fyrir okkur á þessum stað, þar sem náttúran er skiptir svo miku máli var að herma ekki eftir náttúrunni, það er skýr skipting milli náttúru manngerðs hluta,“ segir Marcos Zotes arkitekt um sjóböðin.

„Húsið er sett ofan á jörðu, þannig að þegar þú kemur á staðinn séðu ekki bygginguna heldur horfir yfir hana. Hún truflar ekki upplifunina af staðnum. Þú gengur inn í bygginguna gegnum þröngan gang en í aðalsalnum opnast útsýnið út á haf. Þegar þú kemur sjálfa laugina er eins og hún renni saman við hafið. Þetta er eins og að vera í sjónum sjálfum.“

Meira vatn í pípunum

Hrólfur Karl segir ýmis önnur baðtengd verkefni á dagskrá hjá stofunni.

„Við erum að vinna hingað og þangað um landið. Núna er í byggingu Vök nálægt Egilsstöðum, við erum líka að vinna að fjallaböðum í Reykholti í Þjórsárdal. Svo erum við að klára Guðlaugu á Akranesi við Langasand, jarðböðin á Mývatni eru í endurskoðun og við að skoða uppbyggingarmöguleika. Þannig að það er ýmislegt í pípunum.“

Heimild: Ruv.is