Home Fréttir Í fréttum Stækkanlegar íbúðir ætlaðar fyrstu kaupendum í bígerð í Skerjafirði

Stækkanlegar íbúðir ætlaðar fyrstu kaupendum í bígerð í Skerjafirði

171
0
Mynd: Framhús ehf.

Vonir standa til að hægt verði að reisa rúmlega 70 íbúðir í Skerjafirði sem sérstaklega verði ætlaðar ungu fólki. Reiknað er með að þeir sem séu að kaupa sína fyrstu fasteign gangi fyrir í íbúðirnar.

Stefnt er að því að íbúðirnar geti vaxið með eigendunum og verða þær því stækkanlegar.

Það er félagið Framhús ehf. sem stendur fyrir verkefninu en félagið tók þátt í verkefni Reykjavíkurborgar um hagkvæmt hús.

Borgin lagði til sjö þróunarreiti á sjö stöðum í Reykjavík og auglýst var eftir samstarfsaðilum sem töldu sig geta reist hagkvæm og ódýr hús fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur.

Alls sendu 16 hópar inn tillögur og voru níu valdir en starfshópur Reykjavíkurborgar gaf hverjum hóp fyrir sig einkunn.

Verkefni Frambúðar ehf. var stigahæst með 85 stig og fék hópurinn vilyrði fyrir því að byggja á reit í Skerjafirði. Á reitnum er gert ráð fyrir 72 íbúðum en í tillögu að rammaskipulagi er alls gert ráð fyrir 1.200 íbúðum í hverfinu.

Pétur Hafliði Marteinsson, forsvarsmaður Frambúðar.Fréttablaðið/Valli

Svar við erfiðleikum ungs fólks við að komast inn á markaðinn

Knattspyrnukappinn og athafnamaðurinn Pétur Marteinsson er í forsvari fyrir Frambúð og segir hann að félagið sé nú í viðræðum við Reykjavíkurborg um framhald verkefnisins. Vinna við deiliskipulag á svæðinu stendur nú yfir og mun endanlegt fyrirkomulag og útlit á íbúðunum ráðast af viðræðum við borgina og niðurstöðu deiliskipulags.

Sjá einnig: Ætlar að reisa skandinavísk hús fyrir ungt fólk í Gufunesi

Í samtali við Vísi segir Pétur að með verkefninu sé verið að leitast við að finna lausnir á þeim vanda sem skapast hefur á húsnæðismarkaðinum, ekki síst fyrir ungt fólk.

„Leiga hefur hækkað og ungt fólk á í erfiðleikum með að komast inn á fasteignamakaðinn,“ segir Pétur og nefnir til sögunnar Hrunið og þann skort á uppbyggingu húsnæðis sem fylgdi í kjölfarið sem eina af ástæðum þess að ungt fólk á í erfiðleikum með að kaupa sér húsnæði.

„Þetta er risastór kynslóð og þetta fólk er lengur í skóla og það að safna sér fyrir íbúð er mjög erfitt,“ segir Pétur. Þá hafi verið einblínt á byggingu stærri íbúða og því lítið um ódýrar, litlar íbúðir sem henti ungi fólki og fyrstu kaupendum. Með þetta í huga hafi Pétur og félagar lagt höfuðið í bleyti og niðurstaðan er Hoos, verkefni Frambúðar í Skerjafirði.

Grófur uppdráttur að því hvernig húsin á reitnum gætu raðast upp. Endanlegt útlit liggur þó ekki fyrir.Mynd/Frambúð

„Okkar hugmynd er að búa til umhverfi þar sem ungt fólk getur eignast íbúðirnar sínar með tíð og tíma. Við ætlum að reyna að byggja eins lítið og hagkvæmt og mögulegt er. Íbúðirnar verða í kringum 40 fermetrar til að byrja með en stækkanlegar í allt að 80 fermetra,“ segir Pétur en það næst með því að hafa tvær svalir á íbúðunum sem hægt er að loka ef þörf er á.

„Þegar það eru breyttir hagir hjá fólki þá getur íbúðin stækkað með,“ segir Pétur.

Aðeins fyrir einstaklinga, ekki fyrirtæki

Athygli vekur að samkvæmt hugmynd Frambúðar munu fyrirtæki ekki geta keypt þær íbúðir sem verða byggðar, aðeins einstaklingar geta sótt um og gert tilboð í íbúðirnar. Reiknað er með að fyrstu kaupendur muni ganga fyrir.

Þá vill félagið einnig hjálpa þeim sem eru í brýnni þörf fyrir húsnæði en komast að öðrum kosti ekki inn á fasteignamarkaðinn. Þannig sé möguleikanum haldið opnum að umsóknir verði metnar eftir aðstæðum og hag hvers umsækjanda.

„Við munum skoða það að hleypa fólki inn í húsnæðið sem þarf mest á því að halda,“ segir Pétur og nefnir það að talsverður hluti fyrstu kaupenda sem náð hafi að kaupa sér íbúð á undanförnum árum hafi einungis getað gert það með aðstoð foreldra.

Heimild: Visir.is