Home Fréttir Í fréttum Verktakinn vill byrja strax að breikka Suðurlandsveg

Verktakinn vill byrja strax að breikka Suðurlandsveg

434
0
Árni Valur Garðarsson, verkefnisstjóri hjá Íslenskum aðalverktökum. Mynd: Stöð 2/Einar Árnason.

Íslenskir aðalverktakar vilja hefja breikkun Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss strax í næsta mánuði en þeir buðu lægst í fyrsta áfanga verksins, 1.360 milljónir króna. Athygli vekur að öll tilboð voru yfir kostnaðaráætlun. Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2.

Fyrsti áfanginn er tveggja og hálfs kílómetra kafli í Ölfusi, milli Varmár og Gljúfurholtsár, ásamt hliðarvegum, sem tengjast nýjum vegamótum, annars vegar að Ölfusborgum og hins vegar niður að Völlum. Verkinu skal að fullu lokið 15. september 2019.

Þetta er stærsta útboð Vegagerðarinnar í ár en tilboð voru opnuð í höfuðstöðvum hennar í Reykjavík í dag. Verkið var boðið út á evrópska efnahagssvæðinu en aðeins bárust fjögur tilboð og öll innlend.

Tilboð Íslenskra aðalverktaka var 200 milljónum króna lægra en næstlægsta boð, sem var frá Ístaki.Grafík/Guðmundur Björnsson.

Lægsta boð áttu Íslenskir aðalverktakar, upp á 1.361 milljón króna, en það var 9%, eða 111 milljónum króna, yfir 1.250 milljóna króna kostnaðaráætlun. Tilboð Ístaks, Suðurverks og Munck á Íslandi reyndust mun hærri, eða 25 til 30 prósentum yfir kostnaðaráætlun.

Guðmundur Valur Guðmundsson, forstöðumaður hönnunardeildar Vegagerðarinnar, segir mikinn áfanga að ná að opna tilboð í þetta stóra verk. Það séu ákveðin vonbrigði að tilboð skyldu vera yfir kostnaðaráætlun en það sé kannski skiljanlegt að einhverju leyti.

„Þetta leggst vel í okkur. Við komum til með að byrja af fullum krafti bara strax í desember og vonandi tekst okkur að ljúka fyrsta áfanga 30. mars, ef veður og Guð lofar,“ segir Árni Valur Garðarsson, verkefnisstjóri hjá Íslenskum aðalverktökum.

Þeir hjá ÍAV segjast hafa nægan mannskap. Þeir séu að ljúka tveimur stórum verkum, Vaðlaheiðargöngum og Búrfellsvirkjun.

„Við vöðum í þetta strax,“ segir Árni Valur.

Guðmundur Valur Guðmundsson, forstöðumaður hjá Vegagerðinni.Stöð 2/Einar Árnason.

Markmið samgönguáætlunar er að ljúka breikkun vegarins milli Kamba og Selfoss árið 2022 en þetta eru alls um tíu kílómetrar. Guðmundur Valur segir Vegagerðina stefna að því að næsti áfangi verði boðinn út næsta sumar og gerir ráð fyrir að fjárveitingar verði þá tryggðar.

Heimild: Visir.is