Home Fréttir Í fréttum Akranes vill hálfan milljarð frá ríkinu vegna Sementsverksmiðju ríkisins

Akranes vill hálfan milljarð frá ríkinu vegna Sementsverksmiðju ríkisins

211
0
Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Bæjaryfirvöld á Akranesi vilja rúman hálfan milljarð frá ríkinu vegna framkvæmda og uppbyggingar í bænum á reit þar sem Sementsverksmiðja ríkisins stóð í tugi ári.
Þetta kemur fram í bréfi sem er stílað á fjármála- og samgönguráðherra, samgöngu- og fjárlaganefnd og alla þingmenn á Alþingi. Í bréfinu er forsaga málsins rakin.

Þar segir að Sementverksmiðja ríkisins hafi verið reist á Akranesi 1957 og hafi verið eigu ríkisins allt fram til 2003 þegar hún var seld einkaaðilum.

Þegar það var gert hafi ekki náðst samningar milli ríkisins og bæjaryfirvalda á Akranesi um frágang á reitnum sem verksmiðjan stóð á, ef starfseminni yrði hætt.

Í febrúar 2012 var sement framleitt í síðasta sinn í verksmiðjunni og innflutningur kom í stað framleiðslu. Í desember 2013 tók Akraneskaupstaður yfir eignahaldið á stærstum hluta mannvirkja og lóða verksmiðjunnar.

Heildarkostnaður framkvæmda um tveir milljarðir

Fljótlega fór af stað vinna við það að ákveða framtíð hins svonefnda Sementsreits, sem er um 55 þúsund fermetra svæði í hjarta bæjarins.

Byrjað að að rífa verksmiðjuna í desember 2017 og í bréfinu segir að niðurrif sé nú langt komið. Fram til þessa hafi allur kostnaður niðurrifsins lent á Akraneskaupstað.

Áætlað er að heildarkostnaður framkvæmda á Sementsreit verði um tveir milljarðir. Fyrirhugað er að reisa 368 íbúðir auk verslunar- og þjónusturýmis á næstu árum.

Áður en ráðist er í þá uppbyggingu þarf að efla sjóvarnir og hækka Faxabraut, sem liggur meðfram reitnum.

Áætlaður kostnaður við þann hluta framkvæmda eru fimmhundruð og tíu milljónir. Akranes vill að ríkið greiði þann kostnað.

Heimild: Ruv.is