Home Fréttir Í fréttum Heimir og Gulli sprungu úr hlátri þegar Leifur verktaki sagði þeim grátlega...

Heimir og Gulli sprungu úr hlátri þegar Leifur verktaki sagði þeim grátlega staðreynd um Landspítalann og Hlíðarenda

346
0

Heimir Karlsson og Gunnlaugur Helgason, þáttastjórnendur á Bylgjunni, réðu varla við sig úr hlátri í Bítinu í morgun þegar þeir ræddu við Leif Guðjónsson verktaka um framkvæmdirnar við byggingu nýs Landspítala við Hringbraut.

Það verður sprengt á svæðinu við Barnaspítalann og er gert ráð fyrir að það þurfi að fjarlægja 270 þúsund rúmmetra af sprengdu grjóti á svæðinu.

Leifur veit hvert það efni fer: „Reykjavíkurborg er bara með einn viðurkenndan losunarstað, það er upp í Bolöldu. Þetta eru rúmir 60 km fram og til baka.“

Ásbjörn Jónsson, verkefnastjóri hjá Nýja Landspítalanum, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að það muni fara fimm til sex bílar á klukkustund, átta tíma á dag, sex daga vikunnar, þannig sé hægt að fjarlægja jarðveginn á 18 mánuðum.

Leifur er ekki sannfærður um þessa áætlun:

„Þeir segjast ætla að keyra 6 daga vikunnar, 6 eða 8 tímar á klukkutíma, í 8 tíma á dag. Þetta er voða einfalt á Excel-skjali, en ég var um daginn á Keilugranda að rífa risa hús, mikla jarðvinnu þar.

Ég veit alveg hvernig þetta virkar, þú ferð ekkert af stað kl. 8 með fyrsta bíl, það er bara rugl.

Þú ert að byrja um 9, 9:30 og ert hættur kl. 15 út af traffík. Þú ert ekkert með 50 tonna trailer á Hringbrautinni að gera ekki neitt.“

Þáttastjórnendur spurðu þá Leif: Gamla góða íslenska áætlunargerðin. Þannig að þetta verða ekki 20 mánuðir, heldur 40?

„Já er það ekki. 36 mánuðir.“

Þegar hann var spurður hvort þetta væri vanreiknað sagði Leifur:

„Já og vanhugsað. Þetta er líka grátlegt að síðustu bílarnir eru að koma ofan úr fjalli núna í Hlíðarendann, að keyra og fylla upp í Hlíðarendann, sem er hinum megin við götuna, sem allt þetta efni hefði getað farið í.

Það er búið að vinna jarðvinnu fyrir 3 milljarða í Hlíðarenda.“

Sprungu þá Heimir og Gulli úr hlátri og virtust ekki ráða við sig. Ertu ekki að grínast?!

Leifur segir að jarðvegs- og gatnagerðarvinna við Hlíðarenda hafi kostað 3 milljarða. Flytja hafi þurft jarðveg langar leiðir. Nú þurfi að flytja jarðveg langar leiðir frá Hringbraut, hinum megin við götuna. Mynd/Reykjavíkurborg

Leifur: „Það hefði mátt vera með færiband yfir götuna.“

Ert þú að segja mér að efnið úr Landspítalalóðinni að góðan part hefði mátt nota í Hlíðarendasvæðið?

„Allt saman. Þetta eru 270 þúsund rúmmetrar í burtu, þetta eru 340 þúsund allt saman. Þetta eru 8 til 10 bílar á klukkutíma. 18 þúsund ferðir. Þetta eru rúmlega 11 þúsund kílómetrar. Það fljúga stundum fuglar fram hjá okkur, einn þeirra sagði okkur að þetta væri að fara annað.

Á að fara í Skerjafjörð og Kársnes og nota í þessa þverun og þessa brú sem á að koma. Ef þú ert að kaupa 270 þúsund rúmmetra í dag þá kosta þeir um 800 milljónir.“

Veistu hvað það þurfti mikið á Hlíðarenda?

„Það er búið að nefna töluna þrír milljarðar í þá framkvæmd, í gatnagerð og jarðvinnu.“

Hér má hlusta á viðtalið við Leif, hláturskastið er á annarri mínútu.  

Heimild: Eyjan/Dv.is