Home Fréttir Í fréttum Hálfur milljarður án útboðs í borginni

Hálfur milljarður án útboðs í borginni

125
0
Mynd: Fréttablaðið/Stefán

Á fyrstu sex mánuðum ársins keypti Reykjavíkurborg það sem kallast sérfræðiþjónusta og önnur vörukaup án útboðs fyrir ríflega 574 milljónir króna. Þetta samsvarar ríflega 7 prósentum af heildarinnkaupum borgarinnar á tímabilinu. Oddviti Sjálfstæðisflokksins segir þetta óþægilega háa fjárhæð sem þarfnist útskýringa.

Fyrr í mánuðinum gerði fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í innkauparáði borgarinnar athugasemdir við þennan óútskýrða kostnað eins og hann birtist í yfirliti skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar borgarinnar. Sagði fulltrúinn, Björn Gíslason, yfirlitið „ískyggilegt“ í bókun á fundi ráðsins.

Guðlaug S. Sigurðardóttir, fjármálastjóri skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar, segir í svari við fyrirspurn blaðsins að rúmum 277 milljónum hafi verið varið í „kaup á sérfræðiþjónustu“ á fyrstu sex mánuðum ársins og ríflega 296 milljónir fóru í „önnur vörukaup“. Án útboðs.

„Kaup á sérfræðiþjónustu og önnur vörukaup nema því samtals 574.273.893 krónum,“ segir Guðlaug. Hún vill þó setja upphæðina í samhengi við heildarfjárfestingu á fyrri helmingi ársins.

„Þær 574 milljónir – heildarinnkaup án útboðs eru því 7,16% af 8.020 milljóna heildarinnkaupum.“

Fréttablaðið óskaði eftir sundurliðun á 574 milljónunum en fékk þau svör að innkauparáð myndi fá hana fyrst og fara yfir á næsta fundi.

„Þetta er óþægilega há tala á stuttum tíma,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni. Nauðsynlegt sé að fá frekari útskýringar á kostnaðinum.

„Þegar boðið er út færðu hagkvæmari innkaup en einnig er hafið yfir allan vafa að það séu engin önnur sjónarmið sem ráða. Þjóðin var hneyksluð á 22 milljóna króna ljósa­reikningi á Þingvöllum en ítrekað erum við að sjá í borginni tölur sem eru óútskýrðar eða framúrkeyrslu sem nemur hundruðum milljóna.“

Fréttablaðið leitaði viðbragða borgarstjóra vegna málsins en aðstoðarmaður hans vísaði á svar Guðlaugar og taldi ekki tilefni til að bregðast frekar við gagnrýni Sjálfstæðismanna.

Heimild: Visir.is