Home Fréttir Í fréttum Friðað hús sem geymt var á Granda rifið

Friðað hús sem geymt var á Granda rifið

261
0
Mynd: Ruv.is
Friðað hús sem geymt hefur verið á Granda í Reykjavík var rifið fyrir helgi án leyfis Minjastofnunar.
Guðný Gerður Gunnarsdóttir, minjavörður Reykjavíkur og nágrennis hjá Minjastofnun Íslands segir að það sé lögbrot þótt viðir úr húsinu verði nýttir til að endurbyggja það.

Húsið var byggt  árið 1902 og það var við Laugaveg 74. Fyrir um áratug var það flutt hingað út á Granda og þar hefur það verið síðan þá.

Sótt var um leyfi til Húsafriðunarnefndar árið 2006 til að rífa það. Þá þótti það heillegt og því var ákveðið að finna því annan stað. Á meðan leitað var að honum var það geymt  á Granda í Reykjavík þar sem það hefur verið flutt á milli svæða.

Öll hús sem eru eldri en 100 ára eru sjálfkrafa friðuð jafnvel þótt þau hafi verið flutt á milli staða.

Guðný Gerður segir að samkvæmt lögum þurfi að fá leyfi hjá Minjastofnun ef á að færa friðuð hús eða eiga við á einhvern hátt. „Þannig að Minjastofnun frétti bara af þessu um helgina og fór bara og skoðaði þetta á staðnum og sá að það var búið að rífa húsið.“

Eigendur hússins gáfu þær skýringar að það hafi skemmst í eldi og því hafi verið ákveðið að taka það niður. Húsið á að endurbyggja á nýjum stað.

„Þannig að klæðningar og annað sem var ónýtt og skemmt liggur þarna í hrúgu. Það var það sem við sáum en burðarvirki og það sem var heillegt úr húsinu, þeir viðir eru í geymslu og verða endurnotaðir þegar húsið verður endubyggt á nýrri lóð. “

Samkvæmt hegningarlögum er það lögbrot ef friðuðum húsum eða mannvirkjum er spillt.

Hvað er gert í svona tilfellum? Ja það er hægt að kæra það til lögreglu og þá er það bara orðið lögreglumál.“

„En við erum ekki búin að fjalla um málið. Við erum rétt búin að ná fram þessum upplýsingum og það er ekki búið að fjalla neitt um það hér innanhúss Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það.“

Heimild: Ruv.is