Home Fréttir Í fréttum 15.000 tonn af malbiki lögð á Suðurlandsveg

15.000 tonn af malbiki lögð á Suðurlandsveg

91
0
Mynd: Skjáskot af Ruv.is
Um sextíu starfsmenn vinna nú hörðum höndum að því að leggja fimmtán þúsund tonn af malbiki á fjörutíu kílómetra kafla á Suðurlandsvegi, meðal annars á Hellisheiði, Sandskeiði og í Kömbunum. Þetta er stærsta viðhaldsverkefni Vegagerðarinnar í sumar, og kostar tæpan hálfan milljarð.

Vegagerðin hefur beðið eftir því í allt sumar, að fá rétta veðrið til þess að geta hafið malbikunarframkvæmdir frá Sandskeiði og austur fyrir Kamba. Nú er góða veðrið loksins komið, og allt komið á fullt.

„Þetta er okkar stærsta viðhaldsverkefni í sumar,“ segir Birkir Hrafn Jóakimsson, verkfræðingur hjá Vegagerðinni. „Nú erum við að malbika á Sandskeiði sem er bara byrjunin á stærri malbikunarframkvæmdum á Hellisheiði sem við ætlum að klára í næstu viku fyrir austan Kamba við Hveragerði.“

Var ástandið orðið slæmt hérna?

„Já. Það var orðið mjög slæmt eins og vegfarendur voru örugglega búnir að taka eftir. Það var komin mikil flögnun í þetta malbik og frekar lélegt ástand á heiðinni.“

Ökumenn taki tillit

Birkir segir að lélegt ástand malbiksins á þessu svæði megi rekja til þess að viðhald dróst mikið saman á árunum eftir hrun. Nú sé loksins verið að leggja almennilegt malbik. „Ég tel að þetta sé besta fáanlega malbik á Íslandi. Við gerum miklar kröfur til steinefna, og það miklar kröfur að við þurfum að flytja inn þetta efni frá Noregi. Og þetta er sama efni og verið er að nota í malbik í Noregi, Danmörku og víðar.“

Á næstu dögum færir flokkurinn sig upp á Hellisheiðina sjálfa, í Kambana og Hveradalabrekku. Hellisheiði verður töluvert lokið á næstu dögum og verður umferð suma dagana beint um Þrengsli. „Við biðlum til ökumanna að taka tillit til lokana og merkinga og starfsfólks sem er að vinna á veginum,“ segir Birkir.

Heimild: Ruv.is