Home Fréttir Í fréttum Skóflustungur að nýjum miðbæ á Selfossi verða í apríl

Skóflustungur að nýjum miðbæ á Selfossi verða í apríl

273
0
Mynd: RÚV
Skóflustungur að nýjum miðbæ á Selfossi verða í apríl. Þar verða gömul hús endurbyggð. Sveitarfélagið Árborg hefur nú samþykkt deiliskipulagið.

Nýi miðbærinn mun rísa á svæði sem nú er autt sunnan við Ölfusárbrúnna. Húsin verða leigð út fyrir margskonar starfsemi. Þar verður sambland af þjónustufyrirtækjum, veitingastöðum, verslunum og íbúðum.

Leó Árnason er framkvæmdastjóri Sigtúns þróunarfélags sem stendur að verkefninu. Hann segir að til standi að endurbyggja hús sem áður stóðu víðsvegar á landinu en eru horfin af sjónarsviðinu.

„Og það má segja að við séum að endurútgefa þeirra sögu með því að byggja þau á þessum stað og kannski að segja byggingasögu Íslands fyrir ákveðið tímabil.“

Fyrst og fremst eru það hús frá Selfossi sem verða endurbyggð en einnig hús sem áður stóðu við Austurvöll og Aðalstræti í Reykjavík og hús sem voru rifin á Ísafirði, Stykkishólmi og Akureyri. Hann óttast ekki að yfirbragð húsanna verði yfirborðskennt eins og leikmynd.

„Nei, mikið af húsun sem að eru endurgerð eru kannski með nokkrum upprunalegum fjölum í. Við þekkjum hús sem eru 3%-4% með gamla efninu í en þau eru samt orginal finnst fólki. Ég hef engar áhyggjur af þessu. Við munum gera þetta vel og það verður mjög notalegt að vera í þessm nýja miðbæ. Síðan ætlum vð að byggja glæsilegt safn sem var mjólkurbú flóamanna og þar verður skyrsafn í samstarfi við MS, mjög metnaðarfullt verkefni en fyrst og fremst verður þetta bara fúnkerandi miðbær með öllu því sem miðbær þarf að hafa. “

Skipulagsstofnun fer nú yfir verkefnið en til stendur að hefja framkvæmdir nú í vor. Fyrsti áfangi mun taka rúmlega ár, annar áfangi mun hefjast í haust eða vetur og taka eitt og hálft eða tvö ár í viðbót.

Leó segir að búið sé að fjármagna fyrsta áfangann og vinna við að fjármagna annan áfanga sé að hefjast.

„Selfoss stendur við slagæð ferðaþjónustunnar í landinu og ef að við höfum eitthvað fram að fær þá munu gestir koma á Selfoss.“

Heimild: Ruv.is