Home Fréttir Í fréttum Fornminjar undir nýju hverfi við Svalbarðseyri

Fornminjar undir nýju hverfi við Svalbarðseyri

124
0
Mynd: svalbardsstrond.is
Komið hafa í ljós tvö gömul bæjarstæði undir nýju íbúðahverfi við Svalbarðseyri, annað þeirra frá því fyrir 1300. Lóðirnar þar sem minjarnar fundust eru allar fráteknar. Frekari rannsóknir þurfa að fara fram áður en sveitarfélagið getur úthlutað þessum lóðum.

Þetta nýja hverfi er skammt norðan við núverandi byggð á Svalbarðseyri. Þar er áætlað að til verði lóðir fyrir 105 íbúðir í tveimur áföngum. Framkvæmdir við gatnagerð hófust síðstliðið sumar og fyrstu lóðirnar voru tilbúnar til úthlutunar í haust. Í deiliskipulagi fyrir svæðið er ákvæði um skráningu fornminja. Eiríkur H. Hauksson, sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps, segir að alls ekki hafi verið búist við þeirri niðurstöðu sem nú er ljós.

Merki um tvö bæjarstæði

Þegar hafa verið grafnir sex könnunarskurðir að kröfu Minjastofnunar Íslands og liggja þeir í gegnum tólf íbúðalóðir. Lóðirnar liggja í gömlu túni sem var sléttað í kringum 1960. Í einum skurðinum fundust merki um tvö bæjarstæði. Þar kom í ljós hleðsla úr sléttum fjörusteinum, ásamt steyptri gólfplötu, steypuröri og timburleifum. Þá fannst hellugólf og minjar af því sem talið er torfhleðsla, eða torf úr þekju. Þá komu í ljós smá brot úr borðbúnaði og bútur af pottröri, líklega úr röri frá kolavél.

Hugsanlega fornbýlið Sjávargerði

Í skýrslu Katrínar Gunnarsdóttur, fornleifafræðings sem stýrði rannsókninni, segir að þótt rannsóknin hafi verið takmörkuð, megi draga þá ályktun að byggingaleifar geti verið frá býlinu Sjávargerði, sem getið er um í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1707. Af öskulögum að dæma megi ætla að búsetu þar hafi lokið allnokkru fyrir 1300. Þá megi líka ganga út frá að steypta platan og niðurgröftur með hleðslulögn og steyptu röri sé frá býlinu Eyrarbakka, ásamt hellulögn og hellugólfi. Býlið Eyrarbakki var yfirgefið endanlega um 1960 og var þá kveikt í byggingum þess.

Mögulega gerð krafa um heildaruppgröft

Að fenginni þessari niðurstöðu hefur Minjastofnun nú fyrirskipað að grafa skuli fleiri könnunarskurði í gegnum fyrirhugaðar lóðir á íbúðasvæðinu. Komi frekari fornleifar í ljós, skuli meta umfang þeirra og aldur og ákveða í kjölfarið hvort ráðist verði í frekari aðgerðir. Mögulega verði gerð krafa um heildaruppgröft minja sem kunni að koma í ljós.

„Fólk bíður eftir að geta byrjað“

Eiríkur H. Hauksson segir að þessi viðbótarrannsókn verði gerð strax og veður leyfir. Enda sé talsverð eftirspurn eftir lóðum þarna og fjórar lóðir séu þegar fráteknar. „Við getum auðvitað ekki leyft fólki að byrja að byggja á þessu svæði fyrr en Minjastofnun gefur okkur grænt ljós. Lóðirnar þar sem minjarnar fundust eru allar fráteknar, en við getum auðvitað ekki úthlutað þeim formlega fyrr en þetta mál er leyst. Gatnagerð er hafin og heldur áfram í vetur eins og veður leyfir, en við stefnum á að fólk geti byrjað að byggja á svæðinu í maí,“ segir hann. „Við eigum þann valkost loka 2-3 lóðum, þar sem fornleifarnar eru undir, girða þær af og gera ekki neitt á þeim lóðum. En það er ekki óskastaða. Þetta skýrist vonandi innan mánaðar, fólk bíður eftir að geta byrjað.“

Heimild: Ruv.is