Home Fréttir Í fréttum Fyrsta Boeing 757-200 tekin inn í nýtt flugskýli Icelandair á Keflavíkurflugvelli í...

Fyrsta Boeing 757-200 tekin inn í nýtt flugskýli Icelandair á Keflavíkurflugvelli í vikunni

206
0
Mynd: Víkurfréttir.is

Fyrsta Boeing 757-200 þota félagsins (Grábrók) var tekin inn í nýtt flugskýli Icelandair á Keflavíkurflugvelli í vikunni. Vélin var  tekin inn í svokalla C skoðun, en það er stór öryggisskoðun sem framkvæmd er á um það bil tveggja ára fresti og tekur um það bil mánuð.

Í nýja skýlinu, sem er sambyggt eldra skýli, munu einkum fara fram slíkar stærri viðhaldsaðgerðir, þ.e.  stórar skoðanir sem taka 2-6 vikur ásamt breytingum á flugvélum.

Nýja flugskýlið er um 27 metra hátt stálgrindarhús á steyptum undirstöðum. Grunnflötur byggingarinnar er um 10.500 fermetrar og heildarflatarmál hennar um 13.600 fermetrar. Í byggingunni er stærsta  haf í húsbyggingu á Íslandi en þakbitar milli burðarveggja spanna 95 metra.

Með byggingu skýlisins þrefaldar Icelandair aðstöðu sína til framkvæmdar slíkra stórskoðana og getur því flutt flest þeirra til landsins en undanfarin ár hefur Icelandair í auknum mæli þurft að leita sér þessarar þjónustu erlendis vegna stækkandi flugflota.

„Eftir að ákvörðun var tekin um byggingu skýlisins hafa þegar orðið til 50-60 langtímastörf og má ætla að annað eins bætist við á næstu misserum og heildarviðbótin sé þannig yfir 100 störf. Um er að ræða einn umfangsmesta þekkingariðnað á Íslandi, en í dag starfa um 470 manns á tæknisviði Icelandair, þar af um 370 í húsnæðinu við Keflavíkurflugvöll.

Stærsti hópurinn er flugvirkjar en einnig er að finna þar á annað hundrað háskólamenntaðra starfsmanna,“ segir Guðjón Arngrímsson, blaðafulltrúi Icelandair.

Guðjón segir að flugskýlið sé byggt til að svara vexti Icelandair undanfarin ár og til framtíðar, en greitt aðgengi að viðhaldsþjónustu eykur öryggi og hagkvæmni með því að byggja upp þekkingu á flugvélum innan fyrirtækisins.

Slíkt gerir Icelandair einnig kleift að skapa sér sérstöðu með nýjungum í farþegarými og annarri tækni, en mun sveigjanlegra er að vinna slík verkefni með eigin aðstöðu.

Heimild: Víkurfréttir.is