Home Fréttir Í fréttum Opnun og bygging norðurljósarannsóknastöðvar frestast enn

Opnun og bygging norðurljósarannsóknastöðvar frestast enn

28
0
GRAFÍK/AURORA OBSERVATORY
Opnun kínversku norðurljósarannsóknarstöðvarinnar í Reykjadal hefur verið frestað um eitt ár til viðbótar. Framkvæmdaskostnaður hefur hækkað um sextíu prósent undanfarin misseri vegna styrkingar krónunnar og verðlagshækkana innanlands. Upphaflega stóð til að stöðin yrði tekin í notkun haustið 2016.

Þrjú ár frá skóflustungu

Fyrsta skóflustungan að rannsóknarstöðinni var tekin í júní árið 2014 og hornsteinn lagður að 760 fermetra byggingu í október síðastliðnum. Norðurljósarannsóknarstöðin er til þess fallin, eins og nafnið gefur til kynna, að rannsaka norðurljósin og er alfarið fjármögnuð af Kínverjum. Hún stendur á Kárhóli í Reykjadal á Norðurlandi. Nú er svo komið að kostnaður við framkvæmdina hefur aukist mikið umfram áætlanir.

Frá skóflustungu
Mynd: Skjáskot – RÚV

Kostnaður hækkað um 60 prósent

Upphaflega var verktakakostnaður við byggingu hússins rúmar 200 milljónir króna. Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Aurora Observatory, sem er sjálfseignarstofnun heimamanna á svæðinu, segir í samtali við fréttastofu að kostnaður hafi aukist um um það bil sextíu prósent, vegna styrkingar krónunnar og verðlagshækkana innanlands. Hann fór til Kína ásamt fleiri fulltrúum í vor til að ræða þá stöðu sem upp er komin og segir hann að nú sé verið að endurskoða samninga við Kínverjana. Beðið er eftir samþykki stjórnvalda beggja landa.

Átti fyrst að opna 2015

Fyrst átti að taka stöðina í notkun haustið 2015. Því var síðan frestað um ár og nú er markmiðið að opna hana haustið 2018. Reinhard segir að til skoðunar sé að opna tækjarými húsnæðisins fyrr í ljósi þess að stöðin snýr að gagnaöflun og því sé mikilvægt að hefja starfsemi sem fyrst. Frekari ákvarðanir verði teknar með haustinu.

Heimild: Ruv.is